144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

stýrivextir og stöðugleiki á vinnumarkaði.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ákvörðun Seðlabankans frá því í gær hefur verið skýrð af hálfu bankans og þar er vísað í nokkra óvissuþætti. Það er eðlilegt að sitt sýnist hverjum um þessi atriði en hvað viðvíkur vinnumarkaðnum þarf það ekki að koma neinum á óvart miðað við þær yfirlýsingar sem fallið hafa að undanförnu að mörgum þyki ansi miklar blikur á lofti um það hvort hér náist samningar sem eru til þess fallnir að viðhalda kaupmáttaraukningunni og við gætum kallað kaupmáttarsamninga eða hvort á að taka enn eina byltuna með nafnlaunahækkunum og verðbólguskeiði í kjölfarið.

Þetta er á margan hátt dálítið einkennileg staða vegna þess að þeir sem tala hæst um það sem er að í augnablikinu eru væntanlega að berjast — fyrir hverju? Fyrir hverju er barist? Ef ég veit rétt eru vinnumarkaðsaðilar fyrst og fremst að berjast fyrir auknum kaupmætti launþeganna í landinu. Það er helsta baráttumálið. Hvernig gengur að auka kaupmáttinn á Íslandi í dag? Það gengur betur en annars staðar. Það er stutta svarið. Á árinu 2014 jókst kaupmáttur um um það bil 5%. Hvernig eru horfurnar fram á veginn litið? Jú, samkvæmt síðustu spám er gert ráð fyrir því að verðbólgan á þessu ári verði undir 1%. Það eru sem sagt kjöraðstæður til að gera ábyrga kjarasamninga sem viðhalda þeim árangri sem náðst hefur, verja þá kaupmáttaraukningu sem varð í fyrra og að við höldum áfram að byggja undir lífskjörin með ábyrgum kjarasamningum. Í augnablikinu er nefnilega ekkert annað í ytra umhverfinu sem ógnar þessum stöðugleika. Að þessu leytinu til er málið þess vegna alfarið í höndum vinnumarkaðarins.