144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:11]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er bara þannig, þetta er mjög skrýtið. Maður veltir fyrir sér hvers vegna í ósköpum það er svo erfitt að fá þetta í gegn því að það er náttúrlega komið í ljós, reynsla annarra þjóða hefur sýnt það að þetta hafi skilað miklum peningum inn í samfélögin. Hvað dvelur orminn langa í þessu? Eins með skattana. Ég fór reyndar ekki í umræðu um skattamálin í haust, eða þegar við vorum að ræða fjárlagafrumvarpið, en mér finnst algjör þörf á því að fara að skoða það miklu nánar hvernig sköttunum er misskipt í landinu og hvernig fólk kemst upp með það að borga ekki skatta til samfélagsins, að borga ekki inn í samfélögin, á sama tíma og aðrir sem vinna baki brotnu, kannski við láglaunastörf, borga sína skatta og halda uppi þjónustunni fyrir hina. Það virðist alltaf vera þannig að eftir því sem menn eru ríkari borgi þeir sem minnstan skatt, af því að það má ekki taka hvatann frá fólki að ná sér í pening. Ég hef aldrei getað skilið þetta.

Það er náttúrlega alltaf spurning um í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við auka jöfnuðinn? Það er alveg ljóst að ef við gerum það þá búum við til fallegra og betra samfélag. Hitt kallar á alls kyns óteljandi vandamál, aukna glæpatíðni og hörmungar. Það er bara þannig. Ég held að við ættum, eins og ég hef sagt áður, að gera það þvert á flokka. Kannski er það erfitt þegar þessir tveir flokkar sem stjórna vilja það ekki, ef þeir hafa enga löngun til þess að reyna að bæta hag þeirra sem verst standa, þó að þeir segist vera að gera það. Þess sér hvergi merki. Þetta á að vera algjörlega samfélagslegt verkefni, þvert á flokka, að búa hér til fallegt samfélag, enn fallegra samfélag en við búum í því að ekki viljum við tala það niður. En það eru vandamál hér eins og alls staðar annars staðar og við þurfum að koma í veg fyrir þau.