144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst málatilbúnaður hv. stjórnarandstöðu nokkuð sérkennilegur. Ef menn eru hér að tala um almenning í landinu og velferð hans hljóta menn að fagna því að atvinnuleysi hafi minnkað. Menn hljóta að fagna því að atvinnuþátttaka hafi aukist. Menn hljóta að fagna því að verðbólga sé lág. (Gripið fram í.) Menn hljóta að fagna því að kaupmáttur hafi aukist um 5% á síðasta ári. Hvar annars staðar, í þeim löndum sem við berum okkur saman við, (Gripið fram í.) hefur það gerst? Og nú byrjar hv. stjórnarandstöðuþingmaður að kalla fram í og ég vona að það sé vegna þess að hún hafi áttað sig á því að þessi stóryrði í garð hæstv. fjármálaráðherra standast ekki.

Virðulegi forseti. Hér var komið dag eftir dag, svo að við tölum um hlutina eins og þeir eru, og farið fram á það af hv. stjórnarandstöðu að samið yrði við lækna. Sá sem talaði þar með mjög skynsamlegum og ábyrgum hætti var hæstv. fjármálaráðherra eins og hann hefur líka gert í þessu máli.

Það er því miður ekki þannig að hægt sé að gera allt fyrir alla alltaf. Það hefur engri ríkisstjórn tekist og það mun engri ríkisstjórn nokkurn tímann takast. Auðvitað er það markmið að hægt sé að bæta kjör þeirra sem hafa lægstu launin en það er gert með fleiri þáttum en launahækkunum og meðal annars í þessu sem ég nefndi hér áðan.

Hér tala menn um að auðlegðarskattur hafi verið afnuminn. Hann var ekkert afnuminn, það var síðasta ríkisstjórn sem kom honum á og hann var tímabundinn, hann var látinn renna út. Það er sömuleiðis sagt að matarskatturinn sé skattahækkun. Það er rangt, virðisaukaskattsbreytingarnar lækkuðu skatta. (BirgJ: Á matnum?)

Síðan koma menn og tala um heilbrigðismálin. Hvernig dettur hv. stjórnarandstöðu, sem var í stjórn á síðasta kjörtímabili, í hug að ræða heilbrigðismálin? Það er þessi ríkisstjórn sem hefur aukið framlög til heilbrigðismála, alveg sama hvernig það er teiknað upp, hvort sem það er sem hlutfall af ríkisútgjöldum eða í beinum fjárframlögum. Síðasti heilbrigðisráðherra í síðustu ríkisstjórn hefur hvað eftir annað komið hingað upp og sagt að gengið hafi verið (Forseti hringir.) of nálægt heilbrigðisþjónustunni. Og það var ekki síðasta ríkisstjórn sem forgangsraðaði í þágu heilbrigðisþjónustu, hver og einn sem hefur aðgang að ríkisreikningi getur skoðað það og sannreynt.