144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Stutta svarið er nei, það hefur ekki komið til skoðunar. Ég gæti alveg trúað því hins vegar að ýmsum sveitarstjórnarmönnum mundi hugnast þessi tillaga. Við höfum verið að fara almennt yfir yfirfærslu málaflokksins því að bent hefur verið á það að stór hluti af framlögunum til hans koma í gegnum jöfnunarsjóð og inn á þau þjónustusvæði sem var ákveðið að setja upp við yfirfærsluna til sveitarfélaganna. Það kom mjög skýrt fram á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga á haustmánuðum þar sem þau bentu á að tekjustofnarnir sem fóru yfir til sveitarfélaganna við yfirfærsluna reyndust vera umtalsvert digrari en þau áttu von á en að sama skapi höfðu útgjöldin hækkað jafnvel enn þá meira. Þarna eru ákveðnir þættir sem ég held að sé mjög mikilvægt að fara yfir. Við þurfum að fá reynsluna af verkefninu í þessi tvö ár í viðbót og þetta þarf að sjálfsögðu að vera hluti af því hvernig við sjáum þetta fyrir okkur til framtíðar og þá vinnum við í samstarfi við samband sveitarfélaga.

En það eru aðrir þættir líka sem ég tel að menn þurfi að huga betur að sem kannski voru skildir eftir. Þeir snúa að atvinnumálum fatlaðs fólks, hvar við eigum að staðsetja þau og hafa þau með sem bestum hætti. Ég hef líka verulegar áhyggjur af húsnæðismálum fatlaðs fólks og ég finn að það á ég sameiginlegt með félagsmálastjórum, og þar erum við að tala um umtalsverðar fjárhæðir. Ég held að framkvæmdastjóri sambandsins hafi talað um milljarð á ári til þess að mæta því. Ég á enn þá eftir að fá nákvæmlega fram á hverju hann byggir þær tölur en við höfum verið í samstarfi við sambandið upp á að ná að kortleggja það. Þetta er það sem mér hefur fundið svo dásamlegt við að kynnast þessum málaflokki, málefnum fatlaðs fólks, við erum að tala um fjölbreyttan hóp (Forseti hringir.) með margvíslegar þarfir og við þurfum að reyna að koma til móts við þá alla.