144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og verkefnasamskipti eru náttúrlega eilífðarverkefni, þau verða ekkert leyst í eitt skipti fyrir öll og búnar til um aldur og ævi reglur þar um. Satt best að segja eru þessi mál að mörgu leyti í fastari skorðum hér en víða annars staðar. Danskur kollegi minn einn á meðan ég var fjármálaráðherra sagði mér frá því að það þýddi ekkert að bóka sig á fundi í júní því júnímánuður væri frátekinn. Frátekinn í hvað? Jú, júnímánuður hjá danska fjármálaráðherranum fer í að semja við sveitarfélögin um árleg tekjuleg samskipti. Það er frá morgni til kvölds, yfirleitt frá 1. júní til 30. júní, harðar viðræður. Þar er einfaldlega bara samið árlega í verulegum mæli um þessi fjárhagslegu samskipti. Hér eru þau þó í miklu fastari skorðum að því leyti að sveitarfélögin hafa býsna trausta og breiða tekjustofna, kannski ekki breiða en þau hafa þó einn stöðugasta tekjustofn sem fyrirfinnst í nokkru hagkerfi sem eru beinir skattar á laun. Það er þannig. Ég spyr stundum vini mína hjá sveitarfélögunum þegar þeir tala um að fá hlutdeild í öðrum tekjustofnum, hvort þeir séu endilega vissir um að það sé til bóta, tekjustofnar sem eru kannski mun hverfulli en þessi sem yfirleitt er traustasti og stöðugasti tekjustofn í hverju hagkerfi, þ.e. skattlagning á launasummuna í landinu. Auðvitað getur hún gefið eftir eins og við fengum að kynnast en þá gaf líka allt eftir. Ekki hefðu sveitarfélögin verið betur sett með hlutdeild í óbeinum sköttum sem urðu sumir hverjir nánast að engu í hruninu.

Tortryggnin er kannski að einhverju leyti vegna þess að samskiptin hafa stundum ekki verið nógu góð. Þau voru til dæmis búin að vera í alveg skelfilegu frosti árin áður en ég kom að þessu. Það upplifði ég heldur betur. Það er greinilegt að menn telja reynsluna af flutningi grunnskólans blendna. Ég tel að menn hafi ekki neitt, enn sem komið er a.m.k., til að benda á að ríkið hafi ekki staðið vel að yfirfærslunni núna. Að einu leyti gæti ég sagt að hún hefði kannski getað verið betur (Forseti hringir.) útfærð, það er að við hefðum samið til lengri tíma. (Forseti hringir.) Kannski er það helsti veikleikinn (Forseti hringir.) að þetta voru bara þrjú ár.