144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

lánveiting Seðlabanka til Kaupþings.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki að hve miklu leyti lánveitingin, sem vísað er til, á að standa í einhverju rökréttu samhengi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar í síðustu viku. En gott og vel. Bankinn féll og að sjálfsögðu á þingið rétt á því að fá skýringar á þeirri atburðarás sem leiddi til þess að Seðlabankinn ákvað að veita Kaupþingi lán. Það var reyndar ekki gert nema að fengnum veðum, sem á þeim tíma þóttu nokkuð trygg. Ætli þau hafi ekki, í samanburði við það sem ríkisstjórnir voru að gera og seðlabankar annars staðar í Evrópu, þótt bara býsna góð, sérstaklega þegar horft er til þess hvernig úr hefur ræst víða annars staðar.

Ég tel reyndar að á síðasta kjörtímabili hafi fjárlaganefnd farið allgaumgæfilega ofan í þetta mál og ég kannast ekki við að staðið hafi á Seðlabankanum að veita svör. Það eru síðan margir sem telja að málið verði ekki að fullu upplýst nema þetta tiltekna símtal komi fram. En hvers vegna ekki bara spyrja þá sem í hlut áttu og Seðlabankann, þær stofnanir sem fjölluðu um málin? Hvers vegna er ekki hægt að treysta þeim svörum sem þaðan koma þegar öllum er ljóst að stjórnvöld á þessum tíma gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að bjarga fjármálakerfinu og hagsmunum Íslendinga eftir því sem aðstæður leyfðu? Fyrir mér er málið tiltölulega einfalt og ekkert mikið flóknara en þetta. En að sjálfsögðu á þingið rétt á því að fá skýringar, og ég tel reyndar að þær séu komnar fram.