144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

lánveiting Seðlabanka til Kaupþings.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Stjórnendur Kaupþings töldu sig örugglega, ábyggilega, vera að gera allt sem í þeirra valdi stóð á þeim tíma til að bjarga bankanum, örugglega. Og til að setja málin aðeins í samhengi; stjórnendur Kaupþings hafa núna verið dæmdir í fangelsi fyrir það sem þeir voru að gera á nákvæmlega þeim tíma, haustið 2008. Á þeim tíma var Seðlabanki Íslands að veita Kaupþingi, stjórnendum Kaupþings, lán, risastórt lán. Það kom alveg í ljós við umfjöllun þingnefnda á síðasta kjörtímabili að alla vega voru verklagsreglur bankans um það hvernig ætti að veita þrautavaralán brotnar. Ef málsvörnin er bara þessi að menn töldu sig hafa verið að gera það sem var rétt á þeim tíma þá ætti (Forseti hringir.) nýlegur dómur Hæstaréttar að sýna að það er ekki nóg. Við þurfum að fá (Forseti hringir.) allar upplýsingar í þessu máli til að leiða til lykta.