144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum ríkisins.

513. mál
[15:47]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir viðbótarspurningarnar sem ég fékk og skoðanir þingmanna sem komu í pontu. Ég vildi bara benda á að það kemur fram í frétt 4. febrúar, varðandi þann starfshóp sem verið var að nefna hér um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, að hlutföllum kynjanna í hópnum hafi verið breytt um mánaðamótin og raunar áður en fréttin birtist í Fréttablaðinu varðandi breytinguna þar.

Það er kallað eftir skoðun minni. Hún er einfaldlega sama skoðun og allra annarra, vona ég, sem gegnt hafa embætti ráðherra, þ.e. að við förum öll eftir þeim lögum sem Alþingi setur. Það gildir um jafnréttislög jafnt og um öll önnur lög.

Eins og kom hér fram þá er hægt að kynna sér skýrslu Jafnréttisstofu varðandi kynjahlutföllin og breytingin hefur verið jákvæð. Eins og nefnt var hér náðum við því markmiði árið 2013 að öll ráðuneytin næðu tilsettum hlut kynjanna, eða 40% viðmiðunarmarkinu, í fyrsta skipti frá því að löggjöfin var sett árið 2008. Ég er ekki með upplýsingar sem snúa að einstökum ráðuneytum en ljóst er að frá árinu 2013 hafa öll ráðuneyti náð þessu markmiði.

Ég mundi gjarnan vilja sjá að við reyndum að gera enn betur og það er það sem við erum stöðugt að reyna að vinna að í velferðarráðuneytinu, að vera með sem jöfnust hlutföll, helst bara 50:50, kvenna og karla. Það er ánægjulegt að sjá að verið er að vinna jafnt og þétt að því að tryggja að svo sé óháð málaflokknum.