144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson. Vegaframkvæmdum er nú að ljúka við Vestfjarðaveg 60 milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði og er sá kafli mikil samgöngubót. Við þingmenn Vinstri grænna reyndum það um daginn í kjördæmaviku þegar við keyrðum þá leið til Patreksfjarðar. Það verkefni hófst á síðasta kjörtímabili og var hátt í 4 milljörðum varið í það í miðri efnahagskreppu. Nú eru að verða liðin tvö ár frá því núverandi ríkisstjórn tók við og ekkert liggur enn fyrir um áframhaldandi uppbyggingu á Vestfjarðavegi 60 og nýrrar veglínu um Gufudalssveit. Enn þá liggur ekkert fyrir um í hvaða nýframkvæmdir verður ráðist í vegamálum. Það var mikill niðurskurður eins og við þekkjum til samgöngumála í síðustu fjárlögum og enn er beðið eftir forgangsröðun innanríkisráðherra og framlagningu nýrrar samgönguáætlunar.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson, sem lætur þessi mál sig varða, hvað honum finnist um þennan mikla seinagang og niðurskurð til vegaframkvæmda sem birtust í síðustu fjárlögum og hvort hann sé enn þá sama sinnis og hann var þegar hann flutti tillögu um að setja sérstök lög um vegalagningu á Vestfjarðaveg 60, þ.e. frá Þorskafirði í gegnum Teigsskóg og að Melanesi á Skálanesi, hvort hann telji að fara eigi þá leið og hvað tefji, að hans mati, að hægt sé að fara að byrja að minnsta kosti á einhverjum köflum sem eru ekki umdeildir eins og veglínan um Teigsskóg. Mig langar að vita hvort þingmaðurinn sé sama sinnis og hann var á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) um lagasetningu í þessum efnum.