144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

heimild fulltrúa Vestnorræna ráðsins til að senda fyrirspurnir til ráðherra.

480. mál
[19:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Um er að ræða ályktun sem felur í sér að skorað er á ríkisstjórnirnar í löndunum þremur að heimila okkur sem sitjum í Vestnorræna ráðinu að senda fyrirspurnir til ráðherra í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem tengjast vinnu okkar í öllum löndunum þremur. Þannig geti íslenskur þingmaður sem situr í Íslandsdeild Vestnorræna þingsins beint fyrirspurn til, segjum sjávarútvegsráðherra Færeyja eða utanríkisráðherra Grænlands um þau málefni sem við teljum að tengist vestnorrænni samvinnu.

Nú kann það að hljóma þannig að vestnorrænu þingmennirnir muni drekkja þessum ágætu ráðherrum í fyrirspurnum, en við reynum að stemma stigu við því í ályktunartextanum með því að segja að fyrirspurnirnar verði fyrst sendar á skrifstofu Vestnorræna ráðsins og síðan áfram til viðeigandi ráðherra sem hafi þá átta vikur til að svara fyrirspurninni. Við teljum þetta mikilvægt til að opna á þann möguleika að afla greinargóðra svara og ná að fylgjast betur með því sem snertir okkur öll. Fyrirmyndin að þessu er frá Norðurlandaráðsþingi. Í 57. gr. í Helsingforssamningnum segir, með leyfi forseta:

„Kjörinn fulltrúi getur beint fyrirspurn til ríkisstjórnar eða ráðherranefndarinnar vegna skýrslu eða greinargerðar sem send hefur verið ráðinu eða um önnur mál sem varða norræna samvinnu.“

Við í Vestnorræna ráðinu óskum eftir því að fá viðlíka heimildir. Miðað við reynsluna af þessu ákvæði í Norðurlandaráði er það ekki þannig að ráðherrar séu að sligast undan álagi vegna slíkra fyrirspurna.

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að þetta mál fái góða umfjöllun í utanríkismálanefnd, en ég óska eftir að málinu verði vísað þangað.