144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[15:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggjum við til, eins og komið hefur fram, að stóriðjan taki þátt í því samfélagslega verkefni að jafna húshitunarkostnað í landinu og taki þátt í niðurgreiðslu á dreifingu á raforku. Ef þetta verður ekki samþykkt horfum við upp á það að orkuverð hækki á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Er það meining meiri hluta stjórnarþingmanna? Það mun hækka orkuverð á stöðum eins og Ólafsvík og Vestmannaeyjum og hjá minni iðnfyrirtækjum vítt og breitt um landið sem nota mikla raforku þar sem fjarvarmaveitur eru. Höfum við ekki talað um að reyna að jafna orkuverð og helst að ná því þannig niður sem fyrst? Með því að hafa þetta eingöngu innan dreifiveitna erum við ekki að því. Hér leggjum við til að stóriðjan taki þátt í þessari jöfnun og þar með getum við gert þetta hratt og fljótt.