144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrra atriðið, hvað gerðist frá miðju ári 2013 til ársloka sem bætti afkomu ríkissjóðs, þá var það einkum einskiptistekjufærsla vegna afhendingar á hlutabréfum í Landsbankanum sem breytti stöðunni mjög verulega. Þegar við horfum eingöngu til rekstrarþáttanna og lítum fram hjá óreglulegum tekjum þá endaði staðan nokkuð nálægt því sem spáð var hjá ríkisaðilum á árinu 2013. Það er að sjálfsögðu ánægjuefni að heildarafkoman hafi verið betri en á horfðist en ég tel að það hafi sýnt sig að þær aðhaldsaðgerðir sem ný ríkisstjórn greip til sumarið og haustið 2013 með fjáraukalögum hafi reynst nauðsynlegar. Þær voru skynsamlegar í ljósi þeirrar óvissu sem þá ríkti um afkomuna og til að tryggja þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér um að loka fjárlagagatinu við fyrsta mögulega tækifæri.

Spurt var um Landbúnaðarháskólann, þann halla sem þar hefur verið viðvarandi, eldri halli, og einnig vikið að því að í frumvarpinu er gamall halli Landspítalans felldur niður. Þá gerist það þannig með Landspítalann að samkomulag tekst á sínum tíma um að reyna að tryggja hallalausan rekstur og þegar þau markmið nást er staðið við það sem í því samkomulagi var lofað, þ.e. að fella eldri halla niður. Vandinn hjá Landbúnaðarháskólanum hefur verið viðvarandi halli. En ég hef áhuga á því í mínu ráðuneyti að koma upp skýru verklagi fyrir stofnanir og ríkisaðila um þessi atriði þannig að menn geti gengið að því vísu að eldri halli verði strikaður út eftir ákveðið tímabil samkvæmt samningi ef tiltölulega skýr og gegnsæ markmið hafa náðst.