144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

sjávarútvegsmál.

[13:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku urðu þau tíðindi að hæstv. sjávarútvegsráðherra tilkynnti að ekki yrði af framlagningu frumvarps um stjórn fiskveiða á þessu þingi vegna ágreinings stjórnarflokkanna um efni málsins. Ekki nóg með það, heldur sagði ráðherra líka að ekki væru líkur á að frumvarpið kæmi fram yfir höfuð á þessu þingi.

Það er mjög athyglisvert þegar haft er í huga að báðir stjórnarflokkarnir hafa haft það að yfirlýstri stefnu sinni í ríkisstjórn að vinna á grundvelli sáttanefndarinnar svokölluðu frá síðasta kjörtímabili að þeir skuli ekki ná í land með þá vinnu sína. Vinna og niðurstaða þeirrar nefndar byggði á einni frumforsendu sem var þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá og nýtingarsamningum á þeim grundvelli. Það virðist því vera þannig að öfl innan stjórnarflokkanna haldi svo fast í einkaeignarrétt á veiðiréttinum að ekki sé hægt að vinna á þeim grundvelli sem lagður var í sáttanefndinni.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari stöðu. Er ekki fullkomlega óásættanlegt að ekkert gerist á kjörtímabilinu í sjávarútvegsmálunum vegna þessarar stöðu? Er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi neitunarvald í málinu í ríkisstjórninni og geti komið í veg fyrir vinnu á þessum grundvelli? Og er ekki einboðið að menn einhendi sér í það verkefni sem brýnast er, sem er að tryggja þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá eins og gert var ráð fyrir í tillögum samstarfsnefndarinnar og eins og hlýtur að vera frumforsenda fyrir frekari vinnu við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu?