144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

afnám hafta.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um verkefni sem er vonandi í gangi af fullum krafti en það varðar afnám hafta. Maður er orðinn svolítið langeygur eftir einhverju plani um afnám hafta, að einhverjar áætlanir verði gerðar opinberar og farinn að velta því fyrir sér hverju það sæti að slíkar áætlanir hafi ekki litið dagsins ljós. Menn eru sjálfsagt að vanda sig eins og ég heyri einn hv. þingmann segja hér við sjálfan sig, en mig langar að velta því upp hvort það geti verið ágreiningur milli stjórnarflokkanna í þessu máli sem aftri ferlinu. Mér finnst að hæstv. forsætisráðherra tali oft eins og afnám hafta snúist um það að inn í íslenskt samfélag, í opinbera sjóði, geti skilað sér mörg hundruð milljarðar, að afnám hafta snúist ekki bara um að afnema höft og koma á frjálsum fjármagnsflutningum heldur séu þarna einhverjir sjóðir sem Íslendingar geti nýtt sér til alls konar verkefna. Ég er þeirrar skoðunar að á þessari nálgun, ef ég hef skilið forsætisráðherra rétt í þessu, séu verulegir annmarkar. Ég held að það geti verið erfitt, t.d. ef við skattleggjum þrotabúin með útgönguskatti, að réttlæta slíka skattlagningu fyrir dómstólum ef hún snýst um að skapa digra sjóði á Íslandi. Einnig get ég ímyndað mér að slík nálgun sé ýmsum hagfræðilegum annmörkum háð, að ef hér myndast digrir sjóðir út úr þessu ferli, nokkur hundruð milljarðar, hefði það sömu áhrif að dæla þeim peningum inn í hagkerfið og einfaldlega að prenta svoleiðis peninga. (Forseti hringir.) Getur hæstv. forsætisráðherra sagt við mig skýrt hvort hann líti svo á að ferlið við afnám hafta snúist um það að skapa hér digra sjóði?