144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

afnám hafta.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki enn fengið skilning á áhyggjum hv. þingmanns af stöðu kröfuhafa og því að á einhvern hátt sé verið að svína á þeim ef tekinn væri upp svokallaður útgönguskattur. (GStein: Sagði það aldrei.) Hvað varðar spurninguna um hvernig ríkið nýtir það fjármagn sem verður til með skattlagningu, hvort sem það yrði til með útgönguskatti eða öðrum sköttum, þarf ríkið að sjálfsögðu að gæta þess að ýta ekki undir þenslu í ákvörðunum um útgjöld. En hér er ekki um að ræða að menn ætli að setja mörg hundruð milljarða á einu ári í framkvæmdir sem skapi þenslu. Ef staða ríkissjóðs batnar hins vegar þýðir það að ríkið þarf ekki að borga eins mikla vexti ár frá ári og er betur í stakk búið til þess að nýta það fjármagn, ekki síst í velferðarkerfið.