144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

þjóðaröryggisstefna.

[13:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það eru víst fleiri ráðherrar í húsinu en hæstv. forsætisráðherra. Í ljósi þess að hæstv. innanríkisráðherra kallaði eftir samræðu um hvort nauðsynlegt sé að stofna þjóðaröryggisdeild vegna meintra hryðjuverkaógna langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort tillögum þar að lútandi hafi verið bætt við í þjóðaröryggisstefnu sem hæstv. ráðherra mun mæla fyrir á næstunni. Þverpólitísk þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu skilaði tillögum um slíka stefnu fyrir tæpu ári til ráðherra. Samkvæmt endurskoðaðri þingmálaskrá er ráðgert að stefnan verði lögð fram þann 27. febrúar næstkomandi. Mig langaði að spyrja hvort hæstv. ráðherra telji að það muni standast, að þetta verði lagt fram þann 27.

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort í þjóðaröryggisstefnu hans verði einhverjar breytingar frá þeirri tillögu sem hv. þingmannanefnd lagði fram í fyrra og einkum hvort í stefnu hæstv. ráðherra verði að finna hugmyndir um þjóðaröryggisdeild og auknar rannsóknarheimildir lögreglu.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. utanríkismálaráðherra hvort hann telji að varnarmál eigi að vera á forræði hans eða hæstv. innanríkisráðherra.