144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega að það sé mjög gott og mikilvægt mál. Nefndin telur þessar athugasemdir greinilega ekki vera þess eðlis að þær þurfi með einhverjum hætti að skýra, þ.e. þá þætti sem verið er að gagnrýna í lögskýringargögnum. Ég tel að það þurfi að rökstyðja hvers vegna svo er. Menn þurfa að fá einhver svör þannig að það skiptir máli að það komi fram.

Ég held að það væri líka snjallt að fá Skipulagsstofnun aftur á fund til þess að fara yfir málið fyrir og eftir afgreiðslu og reyna að fá að vita hvort það sem fram kemur í afgreiðslu nefndarinnar dugi þeim sem svar við því sem óskýrt er og sem þau fjalla um í umsögn sinni.

Mig langar svo að spyrja hv. þingmann um eitt atriði í umsögn Skipulagsstofnunar þar sem mér finnst Skipulagsstofnun líka vera lausnamiðuð og koma með hugmyndir um með hvaða hætti við gætum fjallað um málin og gert betur. Í umsögn sem send var inn 2. desember síðastliðinn segir að kerfisáætlun svipi um margt varðandi eðli og inntak til samgönguáætlunar, þannig að þar er um að ræða áætlun á landsvísu um grunnkerfi línulegra innviða. En dregur það náttúrlega fram að munurinn er að samgönguáætlun er afgreidd sem þingsályktun frá Alþingi en að kerfisáætlun verður samkvæmt frumvarpinu og núna með afgreiðslu atvinnuveganefndar, afgreidd af stjórnsýslustofnun án aðkomu kjörinna fulltrúa. Það fannst okkur í umhverfis- og samgöngunefnd gríðarlega áhugaverð ábending. Mig langar að heyra hjá hv. þingmanni hvort atvinnuveganefnd hafi með einhverjum hætti skoðað þann þátt og þá hugmynd sem þarna er ýjað að að væri mögulegur valkostur. Hefur það verið skoðað í hörgul?