144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er um margt mjög áhugaverð umræða og kannski má svara spurningunni þannig sem kom áðan um það hvers vegna þessi atriði voru ekki tekin fyrir í 1. umr., að hinar ítarlegu umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun, sem mér finnst einna áhugaverðust, voru ekki komnar fram þá og menn voru ekki með eins mikinn efnivið í höndunum og núna til þess að fara jafn ítarlega yfir málin í 1. umr. Nú höfum við fengið þessar athugasemdir. Ástæðan fyrir því að umræðan er jafn efnismikil og raun ber vitni er sú að nefndarálit atvinnuveganefndar svarar ekki þeim álitamálum sem fram koma í þessum umsögnum. Það hefði verið mjög hjálplegt fyrir umræðuna ef þessar umsagnir hefðu verið teknar fyrir og ef gerð hefði verið tilraun til að svara í nefndaráliti helstu gagnrýnisatriðunum sem þar er að finna.

Þá vil ég líka nefna að það er dálítið undarleg staða sem við í öðrum þingnefndum lendum í gagnvart félögum okkar, eins og í þessu tilfelli þar sem við erum beðin um að vera umsagnaraðilar um ákveðna þætti mála sem verið er að fjalla um í öðrum nefndum. Það má þá velta því fyrir sér hver staða okkar er í hinum nefndunum þar sem við erum líka drekkhlaðin verkefnum og þurfum og viljum setja okkur jafn vel inn í málin eins og sú nefnd sem fjallar um málið, en þar eru okkur settar skorður vegna tímaskorts. Það þarf að taka það fyrir með einhverjum hætti. Ég veit að þetta mál var tekið upp á fundi í morgun með þingflokksformönnum og forseta og þar verður málið skoðað áfram og eins með hvaða hætti þingnefndir eiga að vinna saman inn í framtíðina að málum eins og þessu. Við erum oft sett í mjög óþægilega stöðu, ég tala nú ekki um ef síðan er gengið á okkur eða umsagnarnefndina og hún beðin um að koma með „konkret“ breytingartillögur. Er það hlutverk umsagnarnefndar?

Við þurfum að velta því öllu saman fyrir okkur vegna þess að ef það á að vera hlutverk umsagnarnefndar held ég að heillavænlegast væri að nefndirnar funduðu saman og nefndarformenn, í þessu tilfelli formenn umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar, töluðu sig saman um fyrirkomulag gestakomu þannig að umhverfisnefnd sæti þá fundi þar sem tekið er á móti gestum. Þá yrðu sameiginlegir fundir til þess að fjalla um þá þætti sem snúa að umsögn umhverfisnefndar. Þannig gætu nefndirnar átt einhvers konar „diskúsjón“ um það sem mögulega væri hægt að gera tengt þeim þætti þannig að sú umræða færi ekki fram í þingsal. Þá værum við í nefndunum búin að fara í gegnum málið í sameiningu. Það yrði til að minnka tvíverknað hér í þinginu og tími okkar allra nýttist betur. Ég tel að við ættum að skoða það sem framtíðarfyrirkomulag vegna þess að enginn vill heldur láta leggja á sig aukavinnu við að taka á móti gestum, eins og var í þessu tilfelli í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég tek það fram að mjög vel var að því staðið í okkar nefnd. Það vill heldur enginn að láta sér líða eins og okkur líður svolítið núna, þ.e. eins og að sú vinna hafi hálfpartinn verið til einskis vegna þess að ekkert er gert með þá vinnu sem við unnum.

Við héldum nokkra fundi, fengum gesti og síðan er ekkert gert með umsögn okkar annað en að menn hrökkva í vörn gagnvart þeirri vinnu hér í þingsal. En við vorum beðin um þessa umsögn, þannig að hún verður að fá eitthvert vægi og einhverja umfjöllun, annars er það sóun á tíma okkar.

Virðulegi forseti. Þetta var um vinnulagið og ég vona að við látum okkur þetta að kenningu verða og förum þá að breyta vinnufyrirkomulaginu þannig að það verði skilvirkara og þannig að við getum með einhverjum hætti slípað eða formað verklag um mál sem skarast á milli nefnda til framtíðar litið þannig að við getum öll vel við unað.

Ég er hér með í höndunum umsögn sem ég þarf kannski að útskýra stuttlega. Ég er hér með umsögn sem við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar skiluðum, ekki vegna þess að við erum ekki sammála umsögn þeirri sem meiri hlutinn skilaði heldur eingöngu vegna þess að við vildum hnykkja á ákveðnum þáttum til viðbótar. Við tökum undir umsögnina sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, fór yfir áðan, en það eru nokkur atriði sem við viljum hnykkja betur á. Við tökum í umsögn okkar undir athugasemdir meiri hlutans sem snúa að ákvæðum frumvarpsins til breytinga á raforkulögum sem snúa að stöðu kerfisáætlunar flutningsfyrirtækisins gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaganna. Að mati okkar í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er of langt gengið í þeim efnum og flutningsfyrirtækinu sjálfu er falið vald til að víkja frá skipulagsáætlunum lýðræðislega kjörinna fulltrúa sveitarfélaganna án nægilegs samráðs. Minni hlutinn telur brýnt að bætt verði úr því og telur að skoða eigi hvort kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku skuli fá samsvarandi þinglega meðferð á Alþingi líkt og samgönguáætlun.

Sú umræða hefur áður komið upp í umfjöllun um málið hjá öðrum sem rætt hafa þetta mál og á í raun uppruna sinn í umsögn Skipulagsstofnunar frá 2. desember síðastliðnum. Hún er allrar athygli verð. Ég vona að vegna þess að við minnumst á þetta í umsögnum okkar í umhverfis- og samgöngunefnd og þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað hér — og ég heyri ekki betur en að þingmenn í atvinnuveganefnd séu jákvæðir gagnvart því að skoða það betur — að sá þáttur verði skoðaður vel á milli 2. og 3. umr. og hvort menn ættu hugsanlega að bíða aðeins með afgreiðslu málsins vegna þess að þetta skapalón er fyrir hendi. Við þurfum að skoða það með opnum huga hvort skapalónin í kringum afgreiðslu samgönguáætlunar eigi ekki líka við í þessu tilfelli. Ég tel að það sé algjörlega ferðarinnar virði að skoða. Með því er tryggt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar komi að gerð áætlunarinnar og sömuleiðis að tekið verði tillit til þeirra víðtæku hagsmuna sem undir eru, vegna þess að þeir eru gríðarlegir.

Við teljum einnig að mjög skorti á að að horft sé til umhverfissjónarmiða í frumvarpinu og mér sýnist afgreiðsla málsins frá atvinnuveganefnd ekki bæta úr því, en samkvæmt 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins, a-lið, skal kerfisáætlun til tíu ára byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á og í kerfisáætlun skal gerð grein fyrir forsendum, sviðsmyndum og spám sem stuðst er við. Í því sambandi teljum við að þær skýringar sem fram koma í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð geti engan veginn staðist, en þar kemur fram að við mótun tíu ára kerfisáætlunar skuli horfa til virkjunarkosta í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar. Ljóst er að þó að virkjunarkostum sé raðað í nýtingarflokk rammaáætlunar felur það eitt og sér ekki í sér ákvörðun um að þá skuli virkja enda er könnun á umhverfisáhrifum framkvæmdar, útgáfa framkvæmdaleyfis og fleira algjörlega eftir, það á eftir að fara í gegnum það allt. Að setja kosti í nýtingarflokk þýðir eingöngu að þá hefst leyfisveitingarferlið.

En gott og vel, segjum sem svo að menn noti þetta þá sem einhvers konar viðmið og það má svo sem gera það í einhverjum spám. En þá er hins vegar öllu verra að menn skuli í greinargerð með frumvarpinu nefna biðflokk rammaáætlunar. Biðflokkur rammaáætlunar er ekkert annað en kostir sem ekki hafa fengið næga umfjöllun. Hvernig geta menn þá notað hann til þess að byggja einhvers konar spár á um uppbyggingu á raforku eða nýtingu á þessum kostum til lengri tíma? Það er bara ekki hægt og það gefur ekki raunsanna mynd af málinu. Því teljum við að það sé með öllu ófært að nefna það sem eina af forsendunum eins og gert er í greinargerðinni, það gengur bara ekki upp. Biðflokkurinn er flokkur sem á algjörlega eftir að fara í gegnum, það á eftir að ljúka umfjöllun um þá kosti sem þar eru. Hvernig ætla menn þá að nota hann til þess að gera einhverjar áætlanir um uppbyggingu á flutningskerfinu til lengri tíma en tíu ára? Ég tel að það sé ekki gerlegt og finnst að atvinnuveganefnd hefði nú átt að fara aðeins yfir það með hvaða hætti menn ætla að leggja biðflokk rammaáætlunar til grundvallar tíu ára áætlun um uppbyggingu á flutningskerfi.

Við segjum líka í umsögn okkar að ekki geti talist rökrétt að byggja á þessum atriðum í raunhæfri áætlun. Við tökum undir með meiri hluta nefndarinnar um að frumvarpið þarfnist verulegra breytinga með hliðsjón af þessum atriðum og teljum jafnframt að áhersla á umhverfissjónarmið þurfi að vera fyrir hendi sé litið til þess hversu mikil umhverfisáhrif línulagnir geta haft. Á það skortir í frumvarpinu eins og umsagnaraðilar hafa bent á. Ef við skoðum til dæmis umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er dregið mjög vel fram í þeirri umsögn og sömuleiðis í umsögn Skipulagsstofnunar sem fjallað hefur verið um hér. Kveðið er á um það í markmiðum frumvarpsins en síðan sér þess ekki stað í sjálfum greinunum að menn fylgi þeim markmiðum eftir.

Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar tökum undir athugasemdir þess efnis að í tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína skuli leggja meiri áherslu á jarðstrengi, við erum sammála því. Í því skyni er kostnaðarviðmið upp á 1,5 of lágt. Að mati okkar þarf einnig í því sambandi að horfa til víðari sjónarmiða en lagt er upp með í tillögunni. Horfa þarf til stofnkostnaðar, rekstrar- og viðhaldskostnaðar til langs tíma sem og mats á þeim hagsmunum sem eru í húfi hverju sinni. Þá tökum við einnig undir með þeim umsagnaraðilum sem benda á að rétt sé að telja upp fleiri svæði í lið 1.3 í tillögunni þar sem heimilt skuli vera að víkja frá kostnaðarviðmiðum jarðstrengs vegna lagningar raflína á sérstökum svæðum. Gæta þarf að lagasamræmi við náttúruverndarlög, það skiptir gríðarlega miklu máli, og þeirra svæða sem njóta verndar samkvæmt þeim lögum. Að okkar mati, minni hlutans í nefndinni, á náttúran að njóta vafans í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins, en á það skortir verulega í þessu máli.

Undir þessa umsögn rituðu ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þm. Róbert Marshall og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir.

Eins og sjá má í umsögn minni hlutans er ástæðan fyrir því að tvær umsagnir bárust frá nefndinni ekki sú að við séum ósammála heldur vildum við einungis koma meiri upplýsingum á framfæri.

Eins og ég sagði áðan undrar það mig mjög að ekki sé svarað hinum góðu og mjög ítarlegu umsögnum sem komu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem er fulltrúi sveitarfélaganna sem hér um ræðir og munu verða fyrir barðinu á þessu, og sömuleiðis frá Skipulagsstofnun, sem kemur hér fram með mjög mikilvægar athugasemdir í mörgum liðum. Mér finnst þær fundnar heldur léttvægar í áliti atvinnuveganefndar. Það eru engar tilraunir gerðar til að fara í gegnum þær eða reynt að svara þeim og segja þá hvers vegna menn telji ekki að gera þurfi þær breytingar sem lagðar eru til í þessum umsögnum. Það veldur því að við hin sem ekki höfum farið í gegnum þetta mál með nefndinni, þ.e. í gegnum ákvörðunina um hvers vegna það skuli ekki gera, stöndum dálítið í tóminu. Við vitum ekki rök meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir því hvers vegna ekki skuli t.d. skýra kæruleiðirnar með beinum hætti, hvers vegna ekki eigi að gera það, hvers vegna ekki sé gengið lengra í því að koma til móts við Samband íslenskra sveitarfélaga, hvers vegna ekki eigi að horfa til þeirrar hugmyndar sem lögð er fram í umsögn Skipulagsstofnunar um að fara með þessi mál með sambærilegum hætti og samgöngumálin og lagningu vega. Öll þau svör vantar þannig að öllum spurningunum sem vöknuðu við lestur þessara umsagna er enn ósvarað. Mér finnst við þurfa að fá skýrari svör við þeim og ég veit að óskað hefur verið eftir fundi í nefndinni á milli umræðna og ég vona svo sannarlega að þar geri menn þá bragarbót á þessu og svari þingmönnum sem eiga að greiða um þetta atkvæði hér, einhverju um þessi atriði.

Síðan langar mig að fara aðeins í gegnum umsögn Skipulagsstofnunar vegna þess að að þar koma fram mjög áhugaverð atriði sem ég vil að við reynum að svara áður en við klárum málið. Það getur vel verið að til séu góð svör við því en við verðum þá að koma fram með þau og leggja á sig vinnu við það.

Á bls. 1 í umsögn Skipulagsstofnunar er minnt á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, skuli mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar fara fram áður en leyfi er veitt. Ef fallið er frá leyfisveitingu Orkustofnunar til flutningsvirkja verður eftir sem áður nauðsynlegt að afla framkvæmdaleyfis frá viðkomandi sveitarstjórn, en ef um er að ræða flutningsvirki sem nær til fleiri en eins sveitarfélags nær framkvæmdaleyfi hvers sveitarfélags eingöngu til hluta framkvæmdarinnar.

Af því að Skipulagsstofnun veltir þessum hlutum fyrir sér vakna spurningar um hvort með breytingunni falli niður mikilvæg leyfisveiting varðandi það að setja skilyrði fyrir útliti, legu og byggingu flutningsmannvirkisins í heild með tilliti til niðurstöðu þessa umhverfismats. Því hefur ekki verið svarað og mér finnst skipta máli að við tökum það atriði til sérstakrar umfjöllunar.

Síðan eru auðvitað aðrir þættir og hefur verið fjallað dálítið um þá hér, þ.e. athugasemdir Skipulagsstofnunar sem snúa að leyfisveitingunum, og má finna þær í nokkrum liðum á bls. 2 í umsögn þeirra. Ég hvet þá sem vilja kynna sér málið betur að skoða þá umsögn vel vegna þess að það skiptir auðvitað máli að svara því, því að í umsögn Skipulagsstofnunar segir í stuttu máli að fyrir þeim séu kæruleiðirnar óskýrar. Mér finnst eins og eina svarið sem þau hafi fengið sé: Jú, það eru víst til kæruleiðir. Jú, jú, við vitum það. En þau draga það fram hér að óljóst sé eftir hvaða kæruleiðum málin eigi að fara. Er það mál sem eiga að fara til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefndar um raforkumál eða er það stjórnvaldsákvörðun Orkustofnunar? Það mætti túlka það þannig að Orkustofnun sé þarna með stjórnvaldsákvörðun sem sæti hugsanlega kæru til ráðherra. Það er bara verið að biðja um að þessi leið sé skýrð með einhverjum hætti í frumvarpinu en það er ekki gert. Það væri því ágætt að menn tækju það mál fyrir þó að ekki væri nema rétt til að skanna það.

Það er fleira í umsögn Skipulagsstofnunar sem ekki er svarað með nægjanlegum hætti, virðulegi forseti, og ég er alveg algjörlega sammála eftir að hafa farið í gegnum málið. Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga benda réttilega á það að eitt af markmiðum raforkulaga sé að tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða og það þurfi að fylgja því eftir með einhverjum sýnilegum áherslum í öðrum greinum og í kerfisáætluninni. Það vantar algjörlega. Ég held að menn ættu líka að kíkja betur á það atriði á milli umræðna.

Fleiri atriði mundi ég gjarnan vilja nefna hér og hnykkja á að lokum, af því að tíminn er að renna út hjá mér. Ég veit að nefndin ætlar að fjalla um það mál og formaðurinn er hér á sveimi, en það væri gott ef menn tækju alvöruumræðu á milli umræðna um það hvort skapalónið sem til er varðandi gerð samgönguáætlunar, langtímaáætlunar og skammtímaáætlunar, sé ekki nothæft hér líka. Þannig gætum við mætt miklu af þeirri gagnrýni sem kemur fram í þeim umsögnum sem ég hef farið yfir og það gæti orðið líka meiri og betri sáttaleið en við erum skilin eftir með í þessari afgreiðslu vegna þess að það er algjörlega ljóst miðað við þær umsagnir sem fram hafa komið, og ekki síst þær tvær sem ég hef nefnt hér, að ef við afgreiðum þetta svona þá afgreiðum við frá okkur mál sem er ófullbúið vegna þess að enn á eftir að svara öllum þeim stóru spurningum sem þessir mikilvægu aðilar komu fram með í umsögnum sínum. Og hvar erum við þá stödd? (Forseti hringir.) Þá erum við stödd í óvissu, þá erum við (Forseti hringir.) að skapa meiri vanda en við leysum með því að halda áfram með málið svona.