144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þess að í umfjöllun þess, sem að mörgu leyti er mjög málefnaleg, segir, með leyfi forseta:

„Sambandið leggur sérstaka áherslu á að niðurstaða um efni 9. gr. c getur orðið fordæmisgefandi í sambærilegum málum, svo sem varðandi ákvarðanir um lagningu samgöngu- og fjarskiptamannvirkja. Skortur á skýringum við umrædda grein varðandi þau álitaefni sem snúa beint að sveitarfélögum og lögbundnu hlutverki þeirra í skipulagsmálum er sérstaklega bagalegur.“

Enn fremur segir í álitinu:

„Sambandið telur af þeirri ástæðu og einnig með tilliti til þess hve lítið vægi umhverfissjónarmiðum er gefið í frumvarpinu, að Alþingi hafi mögulega tilefni til þess að kalla eftir því að frumvarpið verði unnið betur áður en það verði lagt fram að nýju. Ef ekki þykir ástæða til þess að verða við þeirri ábendingu verður í öllu falli að tryggja að málið fái vandaða umfjöllun á Alþingi og verður ekki séð að brýn þörf sé á því að afgreiða málið endanlega nú á haustþingi.“

Þetta er umsögn sem kom fram fyrir áramót og þess vegna er vísað til haustþingsins. Maður veltir fyrir sér hvað hasti málinu núna þó að það sé vissulega tilefni til að setja löggjöf á borð við þá sem hér er á ferðinni. Hvað veldur því í raun og veru, hvaða tímarammi er á ferðinni sem veldur því að menn þurfa að fara fram með slíku offorsi í þessu máli?

Hér segir enn fremur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Mikilvægur liður í því að tryggja vandaða lagasetningu um þetta mikilvæga en jafnframt umdeilda mál er að frumvarpið verði sent til umsagnar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og að málinu verði gefinn sá tími sem nauðsynlegt er til að bæta úr þeim annmörkum sem eru á málinu.“

Mig langar til að fá viðbrögð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur við þessari ábendingu Sambands íslenskra sveitarfélaga.