144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Segja má að umsögn meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar sé auðvitað áfellisdómur yfir vinnubrögðum bæði hv. atvinnuveganefndar og frumvarpi hæstv. ráðherra. Eins og hv. þingmaður sagði eru það stór orð að mínu viti að segja í umsögn:

„Frumvarpið gengur í öfuga átt við löggjafarþróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttafarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða, líkt og frumvarpið virðist byggja á.“

En það kemur mér hins vegar ekkert á óvart að stjórnarmeirihlutinn sé ekki sammála um neitt því að hann er yfir höfuð mjög sjaldan sammála, hvort sem er um atvinnumál, umhverfismál eða önnur mál, þannig að það kemur mér svo sem ekkert á óvart hvað sáttin virðist lítil í þessum ágæta meiri hluta.

En það sem kemur mér hins vegar á óvart er að ég hlustaði á hv. þm. Höskuld Þórhallsson ræða þessi mál hér fyrr í dag, en við höfum ekkert heyrt í þeim hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og hver afstaða þeirra nákvæmlega er.

Hvað varðar orð hæstv. ráðherra sem hún hafði hér í upphafi man ég það vel að hún vildi leita eftir breiðri sátt um málið. Hún hefur gleymt að koma þeim skilaboðum til hv. atvinnuveganefndar, en ég veit að hún er að hlusta á umræðuna. Hún hefur fylgst vel með í dag, veit ég. Í hennar sporum mundi ég taka málið til skoðunar á nýjan leik, þannig að það fari ekki í gegn með þeim hætti sem við horfum upp á núna, hún taki málið hreinlega aftur í sínar hendur og vinni það þannig að hægt verði að ná sem breiðastri sátt um það, af því að mjög stór orð eru látin falla í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar. Og ég velti fyrir mér af hverju meiri hluti atvinnuveganefndar hafi ekki kosið að dreifa þeirri umsögn með áliti sínu, þeim fannst kannski óþægilegt að dreifa (Forseti hringir.) þeim áfellisdómi með nefndaráliti sínu.