144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég geri athugasemd við ummæli hv. þm. Jóns Gunnarssonar hér fyrr í kvöld sem voru að mínu mati í tvennum skilningi mjög ámælisverð, annars vegar þegar hann vék að störfum fulltrúa Vinstri grænna í atvinnuveganefnd, hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, og lét að því liggja að hún hefði verið ósjálfstæð í störfum sínum í nefndinni og ekki haft uppgerðan hug til málsins fyrr en hún hefði verið búin að ræða það í sínum þingflokki. Ég get algjörlega upplýst hv. þingmann um að þetta liggur ekki svona, fyrir utan að hann ætti að hugsa sinn gang áður en hann talar svona til samþingmanna sinna.

Ég fór reyndar á tvo fundi sem varamaður í nefndinni og gerði þar fjölmargar athugasemdir, fylgdi eftir ýmsu sem ég sagði um málið við 1. umr. og við höfðum síðan eðlilega samráð um frekari vinnu að málinu, aðalmaður og varamaður í nefndinni. Það lá fyrir fyrir löngu að þingmenn Vinstri grænna mundu ekki standa að þessu máli nema það tæki verulegum breytingum, samanber líka umsögn bæði meiri hluta og minni hluta umhverfisnefndar.

Þá tel ég að ummæli hv. þm. Jóns Gunnarssonar um störf (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefndar hafi verið hneykslanleg.