144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við höfum mikið rætt þetta sýndarsamráð hér. Auðvitað fer það í taugarnar á manni að þetta samráð er í orði en ekki á borði, eins og sagt er. Ég held að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi boðið upp í þann dans að vera tilbúnir að miðla málum og ná sátt um þetta í anda þess sem hæstv. ráðherra sagði, en það er ekki nóg að halda fundi og fá til sín gesti ef maður heyrir ekki hvað sagt er og maður velur hvern maður hlustar á og heyrir bara hvað sumir segja en ekki aðrir. Það er augljóslega það sem málið snýst um hér. Það getur tæplega talist pólitík í því og þeim umsögnum sem hér liggja fyrir frá stofnunum okkar þegar gerðar eru svo margar alvarlegar athugasemdir. Af því að hér var talað um að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum meðal annars til að leggja línur þvert yfir lönd og annað, þá gæti ég aldrei stutt að slíkt yrði gert.

Hér er talað um ástæðu til að breyta aðalskipulagi til samræmis við kerfisáætlun, en þá vitna ég til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Ef tjón skv. 51. gr. leiðir af ákvörðun annars stjórnvalds eða lagafyrirmælum um tiltekna landnýtingu sem sveitarfélagi var skylt að fylgja við skipulagsákvörðun ber ríkið ábyrgð á greiðslu bóta og hefur skyldu til innlausnar, ef við á.“

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé eitt af því sem rætt hefur verið í hv. atvinnuveganefnd en ég hef ekki trú á því að svo hafi verið gert miðað við það nefndarálit sem fyrir liggur.