144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er lagt fram og er til umræðu er mjög athyglisvert í ljósi reynslu okkar síðustu árin af gengistryggingum og þeim hörmungarafleiðingum sem gengistryggð lán höfðu á fjárhag sveitarfélaga, einstaklinga og fyrirtækja í kjölfar hrunsins. Það lætur nærri að 70% lána til fyrirtækja hafi verið í erlendum gjaldmiðli eftir hrunið. Fyrir vikið voru svo að segja öll fyrirtæki landsins bókhaldslega séð gjaldþrota í kjölfar hrunsins, öll fyrirtæki landsins. Gengistryggð lán voru þar af leiðandi grunnþátturinn í því hversu alvarleg áhrif efnahagshrunið hafði á íslenskt efnahagslíf.

Sama mátti segja um heimilin sem engdust í hengingaról gengistryggðra lána þangað til Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að í ákveðnum tilvikum væru þau lán ólögmæt og losaði fólk þar með undan gengistryggingunni. Við fórum síðan þá leið á Alþingi að samþykkja almenna beitingu um breytingar af þeim toga sem kröfuhafar hafa þolað til að tryggja að þau heimili sem voru þó talin vera með gild erlend lán fengju þeim umbreytt í innlend verðtryggð lán eða ígildi þeirra. Svo rammt kvað sem sagt að vanda þjóðarinnar vegna gengistryggðra lána að Alþingi samþykkti að breyta lánasamningum með afturvirkum hætti til ívilnunar vegna þess að fólk komst hvorki lönd né strönd. Sú umbreyting var talin standast fyrir dómstólum og hefur aldrei í sjálfu sér verið vefengd þar. Nú er ég ekki byrjaður að ræða sveitarfélögin en fjöldi sveitarfélaga komst í gríðarlegan vanda vegna gengistryggðra lána. Ég rifja þessa sögu upp vegna þess að gengistryggð lán og gengistengd lán voru mjög stór hluti af neikvæðum efnahagslegum afleiðingum hrunsins.

Það er líka vert að hafa í huga að gengistrygging er vörn gegn veikburða og sveiflukenndum innlendum gjaldmiðli. Gengistrygging er eitt form verðtryggingar. Þetta er með öðrum orðum leið til að tengja verðmæti þess sem innheimt er einhverju öðru en vöxtum í gjaldmiðlinum sjálfum. Þetta er flóttaleið frá veikburða gjaldmiðli. Ásóknin í gengistryggð lán, þegar fólk sótti í erlend lán, endurspeglaði háa vexti á þeim tíma. Fólk flýði sem sagt innlendar stýrivaxtaákvarðanir og innlent vaxtastig með töku gengistryggðra lána. Hugmyndin á bak við aðild okkar að EES felur auðvitað í sér að fólki sé þetta frjálst vegna þess að gengið er út frá því að grunngjaldmiðillinn, þjóðargjaldmiðillinn, sé nógu sterkur til að þola slíkar sveiflur og að flóttinn undan honum verði aldrei svo stórtækur að hann grafi undan þeim grundvelli peningastefnunnar sem innlendi gjaldmiðillinn skapar. Hér varð hins vegar flóð þegar fólk flýði unnvörpum hið innlenda vaxtastig á árunum fyrir hrun og innflæði erlends fjármagns og síðan skyndilegt útflæði þess aftur eftir hrun um gjaldeyrismarkaðinn var auðvitað ástæðan fyrir hruni gjaldeyrismarkaðarins og hafði mikil áhrif á að framkalla bankahrun, sem líklega var þó óumflýjanlegt vegna þess að það var ekki bara vegna áhlaups á gjaldeyrismarkaðinn og skyndilegs útflæðis fjár úr bönkunum sem hrunið varð heldur hafa síðari greiningar bent til þess að ýmislegt hafi verið rotið í eignasafni bankanna.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni og fyrst af því er auðvitað yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra áðan þess efnis að það væri ekki ástæða til að láta reyna á túlkun Eftirlitsstofnunar EFTA á því hvort bannið sem nú er í gildi samkvæmt íslenskum lögum og Hæstiréttur hefur nýverið haldið uppi gagnvart þúsundum fyrirtækja og heimila standist EES-samninginn. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að það væri bara efnisleg niðurstaða hans og ríkisstjórnarinnar að bannið stæðist ekki EES-samninginn. Hvað felst í þeim orðum? Í þeim felst viðurkenning fjármálaráðherra lýðveldisins á því að Hæstiréttur Íslands hafi verið að dæma (Gripið fram í.) eftir lögum sem brjóti gegn EES-samningnum. Það skapar væntanlega ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart bönkum sem hafa þurft að þola að gengistrygging þeirra hafi verið dæmd ólögmæt. Það leiðir af yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra hér áðan. Ef staðreyndin er sú að bannið braut í bága við EES-samninginn eru réttarreglur með þeim hætti að ríkið er bótaskylt gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum sem verða fyrir tjóni vegna þess að innlend löggjöf brýtur í bága við EES-samninginn. Þess vegna kom yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra hér áðan mér mjög á óvart, (Gripið fram í.) að ekki skuli vera staðið í lappirnar fyrir íslenskum hagsmunum og látið á það reyna hvort bann í íslenskum lögum sem Hæstiréttur hefur beitt til þess að ógilda tugþúsundir lánasamninga á undanförnum árum standist EES-samninginn. Mér finnst það sérkennilegt að hæstv. fjármálaráðherra komi hér fram og lyppist niður áður en hann eiginlega hættir sér í að láta reyna á gildi þessa banns að Evrópurétti. Mér finnst þessi málatilbúnaður því orka mjög tvímælis og maður þarf að hugleiða vel hvernig með þetta mál er farið í því ljósi.

Ég vil líka vekja athygli á því að í hér er reynt að útfæra heimildir til setningar ýmiss konar reglna til að hamla þeim frjálsu fjármagnsflutningum sem ætlunin er að innleiða með frumvarpinu sjálfu. Með öðrum orðum, meginreglan felst í því að heimilt sé að veita gengistryggð lán en svo er frumvarpið allt víðtæk heimild til stofnana og þá sérstaklega Seðlabankans til að takmarka þetta frelsi. Það valdframsal er mjög víðtækt eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í andsvari áðan. Það kallar auðvitað á þá spurningu hversu raunsætt það er fyrir okkur að ætla að byggja framtíðarumgjörð krónu án hafta á þeim varúðarreglum sem Seðlabankinn hefur vissulega sett fram hugmyndir um og útfært í riti sínu um varúðarreglur eftir höft frá árinu 2012.

Hér er afhent mjög víðtækt vald til Seðlabanka Íslands og ef maður horfir á aðrar þær varúðarreglur sem Seðlabankinn hefur talið að setja þurfi til að hægt sé að aflétta höftum af krónunni þá eru þær enn víðtækari, fela í sér enn víðtækara vald Seðlabankans til að ákveða hver lifir og hver deyr í frjálsum viðskiptum á markaði, hver fær að fara í gegn með peninga og hver ekki, Jón fái að fara í gegn en ekki Gunna. Beiting svo víðtækra matskenndra heimilda af hálfu seðlabanka felur í sér að mínu viti í reynd tillögu um að afnema algerlega frjáls viðskipti og réttarríki í viðskiptum manna á milli á Íslandi. Ég held satt að segja að hugmyndirnar sem Seðlabankinn hefur sett fram og hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið undir, um ýmiss konar varúðarreglur sem umgjörð utan um peningamálastefnu Íslands til lengri tíma litið með íslenska krónu án hafta, séu svo viðurhlutamiklar að þær kalli á algerlega hlutlausan seðlabanka, algerlega ótengdan stjórnmálunum, algerlega ótengdan hagsmunaböndum nokkurra einustu fyrirtækja á Íslandi, ótengdan kunningjaböndum við forustumenn í íslensku viðskiptalífi. Ég spyr: Hvenær höfum við átt slíkan seðlabanka í íslenskri efnahagssögu? Svarið er: Aldrei. Ef eitthvað er þá hefur það helst verið á síðustu árum sem reynt hefur verið að treysta hið faglega sjálfstæði Seðlabankans. Og hvað sjáum við nú? Við heyrum fréttir af því innan úr stjórnkerfinu að verið sé að reyna að böggla í gegnum nefndarstarf hálfköruðum tillögum um nákvæmlega það að brjóta niður faglega yfirstjórn Seðlabankans, fjölga seðlabankastjórum án nokkurrar efnislegra röksemda, til þess eins að treysta yfirvald ríkisstjórnarflokkanna á skömmtunarvaldinu sem þeir ætla að búa til í hinum nýja seðlabanka sem á að taka við eftir höft.

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er forsmekkurinn að því sem koma skal. Óheftar matskenndar heimildir Seðlabanka Íslands til að hlutast til um frjáls viðskipti koma í veg fyrir að menn fái raunverð fyrir sína vöru og menn geti verið frjálsir að viðskiptum sínum, óheftar heimildir til að ákveða hverjir lifa og hverjir deyja, hverjir auðgast og hverjir tapa. Og samhliða þurfa stjórnarflokkarnir að búa til þannig stjórnarumgjörð um Seðlabankann að með það vald sé farið með þóknanlegum hætti því auðvitað er algerlega ófært að það séu einhverjir slordónar, ótengdir vildarvinum stjórnarflokkanna, sem fari með slíkt ákvörðunarvald.

Að síðustu vekur það athygli eftir yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna um marglofað afnám verðtryggingarinnar, af hálfu Framsóknarflokksins að sjálfsögðu, að hér skuli lög um vexti og verðtryggingu opnuð án þess að nokkuð skuli vera hróflað við hinni hefðbundnu verðtryggingu að nokkru leyti.

Það vekur líka athygli að nýlega hafa komið yfirlýsingar frá hæstv. forsætisráðherra um að hann sé staðráðinn í að halda áfram með þá hugmynd að banna tiltekna tegund verðtryggðra lána, þ.e. 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Við getum öll verið sammála um að það séu ekki hagkvæmustu lánin sem hægt er að fá í heiminum en þau hafa ýmsa kosti umfram ekki neitt. Þau hafa til dæmis þann kost að fólk getur búið öruggt í 40 ár í íbúð og þó að niðurgreiðsla lánsins sé lítil fyrstu 15 árin þá er helst hægt að líkja slíkri lántöku við að taka lán eða leigja hjá sjálfum sér. Mér er það hulin ráðgáta af hverju ríkisstjórnin vill banna þann kost á frjálsum markaði en innleiða hér sérstaklega með nýrri löggjöf möguleika til þess fyrir fólk að taka enn áhættusamari og enn dýrari lán. Lærdómurinn af hruninu er einfaldlega sú staðreynd að gengistryggð lán reyndust miklu dýrari þá en 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Þannig að út frá neytendaverndarsjónarmiðum stendur ekki steinn yfir steini í þessari tillögugerð af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég læt þessu lokið en hlakka til umræðu og umfjöllunar um málið í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég tel mjög mikilvægt að fara mjög vandlega og sérstaklega yfir Evrópuréttarþátt þessara mála og með hvaða hætti ríkið hefur haldið á málum gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA í þessu efni.