144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp því að mér finnst tilefni til þess þegar frumvarp sem þetta er lagt fram. Nú hef ég hlustað hér á ágætar ræður og ætla síst að harma það að verið sé að þrengja möguleika á því að taka erlent lán, sem telst þá bæði erlent og gengisbundið, í íslenskum krónum, enda er eðlilegt að um þau gildi sömu varúðarsjónarmið og um önnur lán sem veitt eru. Það er hins vegar skrýtið að verið sé að lögleiða aftur lán í íslenskum krónum sem eru bundin við gengisvísitölu. Það er verið að auka á verðtryggingu íslensku krónunnar, það er verið að fjölga valkostum til verðtryggingar á meðan markmið ríkisstjórnarinnar er að afnema verðtrygginguna. Það er kannski eiginlega það sem fær mig til að koma hér upp og taka til máls um frumvarpið. Ég vil óska eftir því, eins og aðrir úr minni hlutanum hafa gert, að rækilega verði farið yfir það hvort þetta sé í raun og veru nauðsynlegt, hvort það bráðliggi svona á. Það er líka ágætt að muna í þessu sambandi að núverandi ríkisstjórn virðist hafa það helst á stefnuskrá sinni að einangra okkur frá því að geta haft áhrif á þær reglur sem við eigum að lúta hér á landi. Hér er hótað með tillögu að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu án þess að við vitum hvað það geti falið í sér fyrir hagsmuni Íslendinga, en á sama tíma eru samþykktar gagnrýnislaust reglur frá sama sambandi.

Það er líka merkilegt að það virðist ganga betur að auka á verðtryggingu íslensku krónunnar en að uppfylla loforðið sem tröllreið hér öllu fyrir kosningar. Hver einasti frambjóðandi Framsóknarflokksins á síðustu dögum kosningabaráttunnar hamraði það inn að þetta væri flokkurinn sem ætlaði að afnema verðtryggingu, hana átti að banna á nýjum neytendalánum. Við höfum ekkert séð af þeim aðgerðum. Jú, það hafa verið skipaðar nefndir, þær hafa skilað niðurstöðum en afskaplega hægt virðist ganga að vinna úr þeim. Ég er nýbúin að fá svar frá hæstv. forsætisráðherra um það hvernig ríkisstjórnin hyggist afnema verðtryggingu. Hann endurtók þar tilkynningu af heimasíðu forsætisráðuneytisins frá því í maí í fyrra en þar voru boðaðar einhverjar breytingar sem átti að gera. Ekkert frumvarp hefur komið fram í þá átt og það sem meira er er að svo segir að meta eigi áhrifin af þessum breytingum árið 2016. Það verða ansi lítil áhrif sem við munum sjá þá, því að ekki er búið að gera neina breytingu enn og það er kominn febrúar árið 2015.

Það má því segja að fyrir utan 80 milljarða niðurfellingu á skuldum, sem er auðvitað umtalsvert og hefur ekki síst gagnast efnameiri heimilum með miklar eignir, og að við getum sjálf notað séreignarsparnaðinn okkar í að greiða niður húsnæðislán, sé þetta það helsta sem við sjáum til aðgerða í húsnæðismálum fyrir íslensk heimili; að heimila þeim að taka lán í íslenskum krónum sem eru bundin við gengisvísitölu og þá aðeins efnameiri heimilum landsins. Hin heimilin, meðaltekju- og lágtekjuheimili, þau búa bara áfram við óbreytta verðtryggingu og þau bíða með óþreyju eftir frumvörpum til breytinga á húsnæðismálum sem hafa verið boðuð hér í á annað ár og ekkert örlar á enn. Það er nú ekki útséð með það, við hljótum að halda enn í vonina en þau eru ekki í forgangi, þau eru ekki í sama forgangi og þau mál þar sem ríkisstjórnin beygir sig undir Eftirlitsstofnun EFTA. Okkur ber að fara að þeim reglum og ég er ekki að gera lítið úr því, en í þeim málum virðist vera meiri vilji til verka en þegar kemur að því að framkvæma kosningaloforðin og vinna í hag fyrir hinn almenna launamann á Íslandi og sjá til þess að fólk geti búið við húsnæðisöryggi.

Það var af þeim ástæðum, herra forseti, sem ég sá mig knúna til að koma hér upp. Mér finnst þetta mál endurspegla þá forgangsröðun sem við búum við með núverandi ríkisstjórn við völd. Ég ætla alls ekki að þvertaka fyrir að hér komi fram ákveðnir góðir hlutir, en ég harma það að viljinn standi fyrst og fremst til þess að auðvelda efna- og eignameiri heimilum á Íslandi að taka hagstæðari lán í stað þess að fara í þær kerfisbreytingar í húsnæðislánum og húsnæðismálum sem nauðsynlegt er til þess að tryggja húsnæðisöryggi í landinu. Vaxandi fjöldi býr við mikið óöryggi á húsnæðismarkaði, hér er að skapast neyðarástand og það er fullkomlega óviðunandi að ríkisstjórnin skili auðu í þeim málum.

Í frumvarpinu er verið að breyta lögum um vexti og verðtryggingu. Þeim hefur verið breytt áður á tímabilinu en engin af þeim breytingum lýtur að stóra kosningaloforðinu um afnám verðtryggingar. Fjöldi fólks trúði því að Framsóknarflokkurinn ætlaði í raun og veru að gera eitthvað í þessum málum, Framsóknarflokkurinn lét að því liggja að stjórnvöld hefðu fram að því sýnt skeytingar- og áhugaleysi og þess vegna hefði ekkert verið gert. Auðvitað er staðreyndin sú að verðtryggingin, sem er fráleitt fyrirkomulag, á sér langa sögu hér vegna óðaverðbólgu og er tengd inn í allt fjármálakerfið sem og lífeyriskerfið og það þarf kjark til að vinna á henni. Núna eru aðstæður til að vinna á henni vegna lágrar verðbólgu og hækkandi fasteignaverðs. Aðgerðaleysið í þeim efnum er til vansa fyrir alla þá sem komust til valda út á einmitt loforðið um afnám verðtryggingar. Ég hvet þingmenn stjórnarmeirihlutans, ekki síst framsóknarþingmennina sem blogguðu og skrifuðu greinar og töluðu í sjónvarp og útvarp um afnám verðtryggingar, að setja pressu á ráðherra sína um að vinna í samræmi við stefnu flokksins, að vinna í samræmi við stjórnarsáttmálann og koma með mál inn í þingið sem eru til hagsbóta fyrir venjulegt launafólk en ekki eingöngu efnamestu heimilin. Það er komið nóg af því, þar hefur ekki staðið á aðgerðum, hvort sem um er að ræða skattamál eða aðrar ívilnandi aðgerðir. En aðgerðirnar sem flokkurinn var kosinn út á, aðgerðin um afnám verðtryggingar, þar hefur ekkert sést til neins.

Ég hvet til þess að við vinnslu málsins í efnahags- og viðskiptanefnd verði farið ofan í saumana á því hvort þetta sé eina aðgerðin á þessum þingvetri, þingvetri tvö hjá ríkisstjórninni, sem snýr að húsnæðislánakerfinu, eða hvort það eigi í raun og veru að standa við stóru loforðin.