144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og fleira, er eins og fram hefur komið hvorki stórt né viðamikið en tekur þó á býsna skemmtilegum þáttum. Hér hafa verið fluttar margar merkilegar ræður, sumar alveg herfilega vondar og jafnvel óvæntar. Hér hafa komið fram margar undarlegar fullyrðingar. Ein er sú að dýrustu lánin séu 40 ára verðtryggð lán. Ég veit ekki hver viðmiðunin er, en 40 ára lán og 25 ára lán, verðtryggð með sömu vöxtum, eru nákvæmlega jafn dýr. Ef ég tek dæmi af 4% verðtryggðu láni til 25 og 40 ára er annað bara með 25% meiri greiðslubyrði, en þau eru nákvæmlega jafn dýr. Einhver misskilningur er þarna á ferðinni.

Hitt sem mér dettur í hug hér og hefði kannski átt að segja fyrst er að óverulegur hluti mannkynsins á kost á að taka lán í verðtryggðum íslenskum krónum. Ég hef oft vorkennt afgangi mannkynsins að geta ekki komist í þetta þegar á að banna hér alls konar lántökur. Vissulega hefur afgangur mannkyns ekki tekjur í íslenskum krónum þannig að það getur vel verið að það sé réttmætt bann víða um heim.

Hvað um það, ég tek undir með hv. þm. Sigríði Andersen, mér finnst dálítið mikil forsjárhyggja að ætla hér verulegar umframkvaðir á greiðslumati í erlendu og innlendu. Vissulega kunna að vera meiri sveiflur á gengi gjaldmiðla en á þróun þeirrar neysluverðsvísitölu sem hér er notuð í vaxtaviðmiðunum til að dreifa verðbólguáhrifum. Ég er með á blaði lán sem er tekið í dollurum á versta tíma, í apríl 2007, og ef ekkert er af því greitt og ef ég ber það saman við verðtryggt lán er höfuðstóll dollaraláns sem er tekið á þessum versta tíma, sterkustu krónunni, og verðtryggðs láns sennilega mjög svipaður. Það er allur háskinn.

Auðvitað er erfitt að spá fyrir um framtíðina og öll lán taka einhverjum breytingum í framtíðinni en við getum ekki sagt til um hvernig gengi gjaldmiðla þróast. Ég get heldur ekki sagt til um það hvernig gengi krónunnar þróast, en hins vegar hefur margoft komið fram í þingi að íslenska krónan er illbrúkleg nema til greiðslu. Hún er erfið til geymslu og hún er erfið sem lánamynt. Það er verið að þrengja dálítið að hérna að það er aðeins örlítill hópur sem á að geta tekið lán í erlendri mynt og þá komast menn að einhverri málefnalegri mismunun. Það var málefnaleg mismunun suður í Keflavík fyrir nokkrum árum þar sem einungis flugliðum var heimilt að bera inn í landið bjór, hinum var það ekki heimilt. Þetta var alveg fullkomlega málefnaleg mismunun, en hún var alveg víðáttugalin. Önnur er sú að mönnum hefur dottið í hug að banna sveitarfélögum að taka erlend lán. Þau spor sem hræða eru hugsanlega lán tiltekins bæjarfélags sem kannski tók of mikið af lánum og það var stóra vandamálið.

Áður en einhverjum verður bannað að taka erlend lán vil ég fá útreikning á því hver ávöxtunin var á lánum til dæmis sveitarfélaga sem tóku erlend lán borið saman við ávöxtun á öðrum valkosti sem kann að hafa verið í boði á þeim tíma sem ætti þá væntanlega að vera þessi elskuðu íslensku verðtryggðu lán.

Ein málefnaleg ástæða til mismununar átti að vera sú að einungis fagfjárfestum ætti að vera heimilt að taka erlend lán. Síðan kom málefnaleg ástæða til þess að tryggja bankana, t.d. tvöfalt meiri eiginfjárkrafa. Hvaðan kemur þessi tala um tvöfalt meiri eiginfjárkröfu? Ég segi ósköp einfaldlega: Ég bið menn að fara varlega í boðum og bönnum. Ég styð þetta frumvarp að meginefni til þótt ég vari við ákveðinni forsjárhyggju.

Það væri rétt að skoða lánahreyfingar aftur á bak, skoða ávöxtun lána á þessum erfiðu tímum. Fólk fullyrðir að lán sem eru tekin á þessum versta tíma, 2004–2008, hafi verið einhver skelfing en það getur enginn svarað þeirri spurningu í dag vegna þess að það er verulegur hluti líftíma lánanna eftir. Þessi lán eru hugsanlega tekin til 20–25 ára, það eru 10–12 ár eftir af lánstímanum og við skulum dæma um það eftir á hvernig þessi lán hafa þróast.

Hér varð hins vegar áfall sem leiddi til hruns á krónunni og þess að greiðslubyrði jókst tímabundið. Það er ekki þar með sagt að þetta sé afleitt að eilífu. Yfirlýsingar manna um að íslenska krónan sé langbesti gjaldmiðill veraldar sem eigi að pína upp á þjóðina — þá skulum við líka hugsa til afgangsins af mannkyninu sem nýtur ekki þessa góða kosts. [Hlátur í þingsal.] Ég heyri að ég hef skemmt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni en ég ætlaði alls ekki að gera það, ég skulda honum engin gamanmál. Sem betur fer fer frumvarpið væntanlega til efnahags- og viðskiptanefndar en ekki atvinnuveganefndar eins og menn hafa verið að gæla við. Ég áskil mér allan rétt til að hafa hönd í bagga þegar þetta mál verður afgreitt þar.

Ég segi ósköp einfaldlega að erlend lán á hvaða formi sem þau eru eiga að vera sjálfsagður valkostur og lántaki á að bera ábyrgð á gjörðum sínum og sömuleiðis sú lánastofnun sem veitir lánin. Yfirleitt er vandamálið magnið á láninu sem er tekið en ekki formið. Ég hef verulegar áhyggjur af hlaupareikningslánum, það eru allir að segja að allt sé dýrast, en af hverju í ósköpunum eru ekki hlaupareikningslán bönnuð til almennings sem hefur ekki nokkra getu til að borga 12% vexti? Eða guð má vita hvað er innheimt.

Að lokum ætla ég að fara í gegnum ekki A-hluta stéttarfélaga heldur B-hlutalán Orkuveitu Reykjavíkur sem tekur, að því er mér sýnist samkvæmt ársskýrslu frá 2013, milliliðalaus lán í erlendri mynt en hefur vissulega tekjur í innlendri mynt. Um þetta fyrirtæki hefur mikið verið fjallað og ég held nú að vandamál þess séu ekki lántökurnar heldur fyrst og fremst gjaldskráin. Vextir af þessum lánum eru í svissneskum frönkum, evrum, bandaríkjadölum, japönskun jenum, sterlingspundum og sænskum krónum á bilinu 0,37% til 1,83%, vissulega gengistryggt en lánin eru til langs tíma þannig að áföll sem Orkuveitan varð fyrir á þeim erfiða tíma þegar gengi krónunnar hrundi eru kannski ekki svo mikil. Það kann að vera að ávinningurinn skili sér á lánstíma sem samkvæmt blaði er allt til 2032. Ég vænti þess að ég fái að fjalla um þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.