144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:46]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að svara þessu í öfugri röð, fyrst varðandi það að hér sé farið rangt að, að heimila gengistryggð lán, erlend lán, og fyrst ætti að leysa úr gjaldeyrishöftum. Ég sé ekki að það sé nein þversögn í því. Ég tel að það sé ágætt að vinna að löggjöfinni og að þeim þáttum sem þörf er á þannig að samfélagið verði viðbúið því að hér verði frjálst flæði fjármagns eins og að hefur verið stefnt.

Varðandi hvað þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur samþykkt þá kýs ég að svara ekki fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Ég hef alltaf bent á formann þingflokks eða formann flokksins þannig að ég læt nægja að opinbera mína afstöðu og hún er sú að lengd lánstíma á ekki að skipta meginmáli. Varðandi síðasta atriðið er það náttúrlega svo að áður en menn fara í víðtæk boð og bönn er rétt að þeir horfi aðeins til fortíðar og viti hvað þeir eru að banna og hvað hefur gerst á umliðnum árum. Það sem gerðist hér 2007, 2008 var náttúrlega mjög afbrigðilegt. Menn kann að greina á um orsök þess en meginorsökin var gæði útlána og ákveðin brotastarfsemi í bönkunum, það var ekki farið að lögum um fjármálafyrirtæki. Það leiddi til þess sem hér varð. En ég er að horfa til betri tíma, alla vega með (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn, svona að flestu leyti.