144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[14:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hugsa að almenningi í landinu sé ekki skemmt yfir þeim vinnubrögðum sem tíðkast hér á Alþingi og birtast nú með þessum hætti fyrir framan alþjóð. Það eru gamaldags vinnubrögð að menn geti ekki þegar svona stór ágreiningsmál eru á ferðinni sest yfir þau og reynt að ná einhverjum sameiginlegum fleti til úrlausnar í þeim málum. Frekar halda menn áfram að setja hausinn undir sig og böðlast fram í rauða nótt ef ekki annað er í boði en að setjast niður eins og fólk með einhverja skynsemi í kollinum ætti að gera í svona málum. Það hlýtur að þurfa fleiri til en hv. þm. Jón Gunnarsson til að leysa þessi mál og leysa þann ágreining sem hefur komið fram og gagnrýni í þeim umsögnum sem liggja fyrir og gagnrýni frá hans eigin flokksmönnum og samstarfsflokki í umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég trúi ekki öðru en að menn skoði þetta nú í því ljósi að það er hægt að ná niðurstöðu ef einhver vilji er fyrir hendi.