144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eftir umræðuna fyrr í dag brá mér svolítið við að sjá á visir.is grein gerða fyrir umræðunni um þetta mál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Illu blóði var hleypt í stjórnarandstöðuna þegar Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hleypti Jóni Gunnarssyni, formanni atvinnuveganefndar, fram fyrir á mælendaskrá eftir hádegishlé.“

Það er eins og menn átti sig ekki á um hvað þetta mál snýst. Það snýst ekkert um það hvort menn eru settir fram fyrir eða ekki. Ég hélt að það væri niðurstaða til sátta að leyfa formanni atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að koma hingað til að bera klæði á vopnin, boða það að hann vildi eiga samræðu við umhverfis- og samgöngunefnd og leita lausna í málinu. Svo var ekki og það er það sem deilan snýst um. Vegna þess hvernig mál æxluðust í samstarfi þessara tveggja nefnda erum við að biðja um að úr því verði bætt með því að setja þessar nefndir saman eða formennina, e.t.v. með hæstv. forseta, til að leita lausna í þessu máli.

Það sem við erum að ræða um er að koma fram máli, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem í raunveruleikanum er góð sátt um að leita lausna á. Það liggur á og við viljum gjarnan gera þetta vel, en hvaða hugmyndir hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson um að þurfi til annað en góðan vilja til að koma þessu máli áfram og reyna að leysa það? Það er augljóst að hér er verið að setja málið í meiri og meiri hnút með því að taka afstöðu með öðrum aðilanum og snupra hinn.