144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þykir vænt um það þegar aðstoðarmaður forsætisráðherra, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, tekur að sér að kenna okkur hinum mannasiði og þingsköpin. Það er mikilvægt að hafa sjálfboðaliða í þeim verkum. Mín afstaða er sú að meiri hlutinn geti staðið fyrir sínu ofríki sjálfur. Þegar óeðlilega og afbrigðilega er staðið að þingstörfum og algerlega hunsaðar réttmætar og vel undirbyggðar kröfur fjölda þingmanna, ekki bara úr stjórnarandstöðu heldur líka að hluta til úr meiri hlutanum, eins og hér hefur verið gert undir forustu hv. þm. Jóns Gunnarssonar, kallar það á óvenjuleg viðbrögð. Það er einfaldlega þannig. Annað eins hefur gerst.

Ég hef því góða samvisku fyrir því að leyfa meiri hlutanum sjálfum að bera ábyrgð á sínu ofríki í störfum þingsins. Nægan á hann að hafa meiri hlutann og ég held að það geri ekkert til að hv. þingmenn stjórnarandstöðu eins og hv. þingmenn stjórnarliðsins sem hverfa jafnan hér úr þingsal eins og ekkert sé og sinna þar með ekki þingskyldum sínum, geri það einstöku sinnum.