144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins vegna vinnunnar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, það kom fram einhvers staðar fyrr í umræðunni að fundirnir hafi verið fleiri en tveir um málið en hins vegar séu ekki fleiri samþykktar fundargerðir komnar inn á netið, bara svo að því sé haldið til haga. Ég sat ekki þá fundi en þetta kom fram hér í umræðunni.

Ég tek undir það að verið er að færa ansi mikil völd til flutningsfyrirtækisins og, já, mér fannst ansi margt gott reyndar koma fram í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar í dag. Hann virtist alveg vera á þeirri skoðun að gera þyrfti breytingar á málinu. Það sem ég varð fyrir vonbrigðum með var að hann skyldi ekki vilja taka málið til sín strax og fresta umræðunni núna og fara í að vinna að þeim breytingum strax. Það liggur orðið, held ég, nokkuð vel fyrir hvað það er sem þarf að gera og lesa má það af umsögnum og nefndarálitum ef maður kafar djúpt, auk þess auðvitað sem hefur komið fram í umræðunni.

Varðandi völdin til flutningsfyrirtækjanna vekur það mér svolítinn ugg að í meirihlutaáliti hv. atvinnuveganefndar — þar er reyndar sagt að við umfjöllun um málið hafi verið bent á að ferill leyfisveitinga hvað varðar skipulagsmál og framkvæmdir sé mjög tafsamur og flókinn. Og að meiri hlutinn telji mikilvægt að hugað verði að einföldun hvað það varðar en með frumvarpinu sé þó stigið ákveðið skref. Mér finnst einhvern veginn þetta tala beint í andstöðu við það að (Forseti hringir.) takmarka eigi völd flutningsfyrirtækjanna og færa þau nær almenningi, (Forseti hringir.) þannig að ég veit ekki alveg hvernig skal túlka þetta.