144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:49]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni fyrir að benda á að þessi ágreiningur komi ekki fram þarna. Þegar málið var afgreitt úr nefndinni þá var það skilningurinn að við ætluðum öll að vera saman á málinu. Ef það hefði legið ljóst fyrir þá að minni hluti nefndarinnar ætlaði að vera með sérálit hefði ég vissulega farið fram á að okkar álit yrði orðað öðruvísi og dregið úr því orðalagi sem var í álitinu til þess að fá alla nefndina á það. Þess vegna er þetta svoleiðis. Ef álitið hefði verið sent til atvinnuveganefndar þann dag sem það var afgreitt úr umhverfis- og samgöngunefnd hefði atvinnuveganefnd vissulega haft tíma til að ræða málið. Hvað tafði það, veit ég ekki, og hvernig það gat breyst í leiðinni, að komin yrðu tvö nefndarálit, það er óútskýrt hjá mér. Þegar við skoðum nefndarálit atvinnuveganefndar kemur í ljós að atvinnuveganefnd var að ræða þessi atriði sem umhverfis- og samgöngunefnd gerir athugasemdir við og fékk þá aðila sem við fengum á sinn fund. Þær athugasemdir sem við höfum verið með (Forseti hringir.) komust því til skila í atvinnuveganefnd og hafa verið ræddar þar.