144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar, sem voru í samræmi við það sem ég hafði haldið. Mér krossbrá auðvitað þegar ég fór að kynna mér þetta mál og kynna mér afgreiðslu þingnefndanna, þegar ég sá að ágreiningsásinn var ekki á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég er nú ekki sérlega kröfuharður maður í mínu lífi og ég hefði alveg getað lifað með afstöðu meiri hluta ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og samgöngunefnd. Það hefði verið nóg fyrir mig, ég hefði getað í stórum dráttum sætt mig við þá efnislegu niðurstöðu.

Fyrir vikið er staða okkar í þinginu til þess að taka efnislega afstöðu til málsins eiginlega engin. Ef fram á eftir að fara einhvers konar samráð og frekari vinnsla málsins í nefnd, eins og boðað var af hv. þm. Jóni Gunnarssyni í hans sérstöku utandagskrárræðu hér í dag þar sem hann fékk aukaaðkomu að þingdagskránni, þá vitum við í sjálfu sér ekki hver efnisleg niðurstaða þess samráðs verður. Það samráð á auðvitað að þola síðan alvöruumræðu og í kjölfar þess samráðs verði greidd atkvæði um hverja einustu grein.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að ef málið fer að lokinni umræðu hér til nefndar munum við í fyrsta lagi ekkert vita hvernig við eigum að greiða atkvæði um málið eins og það stendur, en síðan verðum við líka í algerri óvissu um hvert efnislegt inntak þess verður í 3. umr. Þá er ræðutíminn takmarkaðri og umfjöllunarmöguleikar minni og miðað við tregðu stjórnarmeirihlutans núna, (Forseti hringir.) þegar hann er með óboðlegt mál, til að taka málið inn í nefnd á meðan á umræðu stendur er engin von til þess að það brái af (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutanum við 3. umr. málsins.