144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það gleður mig að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra ætlar að koma til fundar við okkur og stallsystur sína, hæstv. innanríkisráðherra. Af því tilefni og vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um formann atvinnuveganefndar, hv. framsögumann málsins, þá undirstrika ég að eins og fundarsköpin voru túlkuð af hæstv. forseta í dag getur formaður nefndarinnar, jafnvel þótt hann sé ekki framsögumaður, komið hingað inn í umræðuna hvenær sem hann vill. Þannig var túlkunin í dag.

Ég tel þá að með tilliti til þess að nú er að koma kvöldmatartími og von er á hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, og minn ástkæri formaður og leiðtogi lífs míns er næstur á mælendaskrá, ég ímynda mér að hann meðal annarra hafi nokkrar spurningar að senda til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, þá sé best að láta við hér kvöld sem nemur og við göngum nú og fáum okkur næringu. Ég veit að það verður væntanlega gefið eitthvert matarhlé, er þá ekki rétt að gera það núna og bíða með að hefja fund þar til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra kemur aftur?