144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er stundum snúið þetta blessaða lýðræði sem menn tala um á hátíðarstundum að eigi að viðhafa en þegar til stykkisins kemur vilja menn oft fara skemmri skírn í þeim efnum. Ég get sagt það sem varaformaður atvinnuveganefndar að því miður varð ekki sú efnislega umræða sem hefði þurft að vera um þær umsagnir í lok þess að fá alla þá gesti sem við fengum. Við héldum vissulega marga fundi og það stóð ekkert á því að fá gesti, en það hefði þurft að gefa sér tíma til að fara yfir umsagnir og að sú gagnrýni sem þar kom fram hefði verið rædd innan atvinnuveganefndar. En hún var ekki rædd, að minnsta kosti ekki í heildina séð, það getur vel verið að meiri hlutinn hafi rætt það með einhverjum hætti, en það skorti virkilega upp á, og það tel ég vera gagnrýnivert.