144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns virðist hann eiga eitthvað sökótt við þá sem hér stendur í dag en ég vona að sá pirringur smitist ekki yfir á Vestnorræna ráðið og þá ágætu vinnu sem þar fer fram. Hingað til hefur hv. þingmaður verið ötull stuðningsmaður vestnorræns samstarfs og þess sem Vestnorræna ráðið stendur fyrir, eins og ég hef skilið hann í þingræðum og framkomu hans, bæði á þessu kjörtímabili og eins á því síðasta þegar hann gegndi störfum utanríkisráðherra.

Varðandi þau atriði sem hv. þingmaður nefndi um fríverslunarsamninga á milli landanna þriggja var það einfaldlega þannig að í þemaráðstefnunni fyrir ári sem haldin var í Færeyjum þá samþykkti Vestnorræna ráðið ályktun þar sem ríkisstjórnirnar voru hvattar til að vinna nánar saman. Í Vestnorræna ráðinu sitja líka þingmenn frá Grænlandi. Þær pælingar, þessar ályktanir, sem komu frá ráðinu komu auðvitað frá þingmönnum frá löndunum þremur. Grænlendingar sem sitja í ráðinu voru á þeirri skoðun á þeim tíma.

Það hefur ýmislegt gerst frá því að sá fundur var haldinn. Við héldum aðra þemaráðstefnu nú í janúar á Grænlandi, þar sem við funduðum og fjölluðum mikið um fríverslunarsamninga, fengum kynningu á því með hvaða hætti þeir eru gerðir. En það er alveg ljóst að lítill áhugi er hjá Grænlendingum eða grænlensku ríkisstjórninni að koma inn í Hoyvíkursamninginn. Hv. þingmaður rakti það ágætlega á hvaða grundvelli það er og við berum virðingu fyrir því. En þá er annað til í stöðunni, það er annaðhvort að löndin geri með sér tvíhliða samninga, þ.e. Ísland við Grænland, Grænland og Færeyjar sín á milli og síðan erum við Íslendingar með samning við Færeyjar, eða þá að gerður verði einfaldlega (Forseti hringir.) nýr þríhliða samningur. Þetta eru þeir tveir möguleikar sem við eigum gagnvart fríverslunarsamningi.