144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

lyklafrumvarp.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Þetta voru samt meira en pælingar. Hæstv. innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á flokksráðsfundi að Sjálfstæðisflokkurinn mundi leggja lyklafrumvarpið fram í þinginu. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar og á hverju stendur þá úr því að þeir voru sammála um þetta?

Nú er þetta niðurstaða ríkisstjórnarinnar og eitthvað sem hún verður að eiga við kjósendur sína, en ég hvet ráðherrann og ríkisstjórnina til að endurskoða þessa afstöðu og að minnsta kosti huga að því að gera ekki aftur sömu mistök og gerð voru í neyðarlögunum þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin og tryggja hag heimilanna með því að frysta verðtrygginguna eða tryggja með lyklafrumvarpi eða einhverjum öðrum hætti að heimilin verði ekki aftur fyrir þeim hrikalega skelli sem þau urðu fyrir í kjölfar atburðanna 2008 og þingið (Forseti hringir.) brást þá þjóðinni í að verja hana fyrir áföllunum sem eftir fylgdu. Það má ekki henda aftur, (Forseti hringir.) þegar menn losa gjaldeyrishöft, að heimilin taki skellinn.