144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið göngum við hér til atkvæða um breytingu á raforkulögum, kerfisáætlun. Eins og hér hefur komið fram við ítarlega umræðu málsins á nokkrum dögum liggur fyrir að málið þarfnast töluverðrar endurskoðunar. Sú vinna stendur yfir í góðri sátt og það er sameiginlegur skilningur á því hvert verkefnið er, ef svo má að orði komast. Við þurfum að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu en ég árétta að sú vinna er unnin af eindrægni af beggja hálfu og allra hálfu sem við borðið sitja. Það er mikilvægt. Í ljósi þess mun ég ekki setja mig upp á móti því að málið fari áfram. Það fer auðvitað til nefndar milli 2. og 3. umr. en við þingmenn Vinstri grænna sitjum hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Svo vil ég geta þess líka að frávísunartillaga sú sem er á nefndaráliti minni hluta er dregin til 3. umr.