144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta fagna því að þetta mál er komið fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar. Þetta er afar gott og mikilvægt mál og má segja að að hluta til eigi hér að festa í lög áform sem hafa verið í pípunum um nokkurra ára skeið. Eins og kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hefur lengi legið fyrir að við þyrftum að stilla betur af lagalegan umbúnað utan um kortagögn á Íslandi. Af því að menn voru aðeins að tala um mikilvægi og þörf á landupplýsingum og gögnum almennt þá held ég að það sé einmitt mikilvægt eins og kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að festa sig ekki í því að ræða það út frá tilteknum stofnunum.

Landupplýsingagögn eru mikilvæg, ekki síst í lifandi landi eins og Ísland er þar sem eru að verða til ný fjöll bara á meðan við stöndum hér og spjöllum, land er að stækka út til sjávar og minnka á öðrum stöðum, landbrot er víða, ár færast til, jökulhlaup verða o.s.frv. Allt veldur þetta breytingum á lifandi landi. Það er ekki bara okkur til skemmtunar og gleði að við þurfum að halda utan um þessar breytingar heldur höfum við ákveðnar skyldur við borgarana í landinu sem varða kortlagningu og yfirsýn yfir náttúruvá. Við þurfum kort til að tala um flóðavarnir, við þurfum kort til að geta talað um náttúruvá eins og snjóflóð, til að hættumeta það sem varðar jökulhlaup, eldgos o.s.frv., allt þetta starf byggir á landupplýsingagögnum. Þá vil ég ekki síður nefna alla umræðuna sem lýtur að landnýtingu. Hér barst í tal rammaáætlun en við getum líka talað um náttúruverndaráætlun, samgönguáætlun og nú síðast kerfisáætlun um flutningskerfi raforkunnar. Öll þessi kerfi þurfa á landupplýsingum að halda. Landbúnaður, ræktun, vegakerfi, allt kallar þetta á landupplýsingagögn. Burt séð frá því hvort það eru einkaaðilar sem greiða fyrir gögnin eða skattgreiðendur, allt kemur það saman í því að það kostar eitthvað, þá er það hagkvæmara og betra fyrir samfélagið og gott fyrir samfélagið í heild að þessi gögn séu sem best og þau séu sem opnust, þ.e. allir þessir aðilar, bæði opinberir aðilar og einkaaðilar, geti haft að þeim aðgang og líka með þeim rökum að samfélagið á þessi gögn og þess vegna eiga þau að vera aðgengileg fyrir samfélagið í heild.

Þá komum við kannski að hugmyndafræðinni sem liggur á bak við þá ákvörðun á sínum tíma sem var í raun tekin með gjaldskrárbreytingu í janúar 2013 sem snerist þá um að gera gögn í eigu stofnunarinnar Landmælinga Íslands gjaldfrjáls. Það var í raun gert á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að öll gögn sem keypt eru með opinberum fjármunum eigi að vera aðgengileg. Þessi gögn, rétt eins og þjóðskrá eða fasteignaskrá eða aðrar þær upplýsingar sem við söfnum saman á forsendum almannavaldsins, eiga líka að vera aðgengileg fyrir þann sama almenning, þar með líka miðlað til annarra stjórnvalda, sveitarfélaga og almennings en síðast en ekki síst, og þá kem ég aðeins inn á orðaskipti hv. þingmanna á undan mér, til fyrirtækja.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafði áhyggjur af hlut einkaaðila í kjölfarið á þessu frumvarpi og var þá kannski fyrst og fremst að horfa á þann enda sem lýtur að gerð og utanumhaldi gagnanna. En við skulum ekki gleyma þeirri hlið sem lýtur að örvun atvinnulífs, þ.e. auknum möguleikum á þróun, rannsóknum og nýsköpun. Það varð í raun og veru alger sprenging eftir að gögnin voru opnuð 2013, ekki síst á einkamarkaði. Alls konar nýsköpunar- og þróunarfyrirtæki fengu þarna fullan aðgang að þessum gögnum og gátu þannig byggt á því þróun og þróunarverkefni fyrir ferðaþjónustuna, fyrir ferðafélög, fyrir náttúruverndarsamtök o.s.frv. Þarna höfðu allt í einu allir grunninn eða efnið til að vinna úr í stað þess að vera háðir því að þurfa að afla sér grunngagnanna eða búa þau til.

Það hefur líka verið sjálfstætt viðfangsefni og það þekki ég eftir að hafa verið í umhverfisráðuneytinu að fleiri en ein stofnun vinnur að öflun, þróun, varðveislu og miðlun landupplýsingagagna og meira að segja margar stofnanir undir sama ráðuneyti. Náttúrufræðistofnun er með sín gögn og Veðurstofa Íslands er með sín gögn. Með frumvarpinu stuðlum við að því að opinbert fé sé nýtt betur að því leytinu til að koma í veg fyrir eða draga úr möguleikunum á tví- og margverknaði í þeim efnum. Það er líka jákvætt.

Ég hef samúð og skilning á þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá einkaaðilum og mér finnst skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af því að þeir missi spón úr aski sínum. Ég er hins vegar sjálf þeirrar skoðunar, og er að því leytinu til kannski afslappaðri gagnvart því að opna gögn en kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að það að sleppa gögnunum lausum verði beinlínis til að örva atvinnulífið og örva þá nýsköpun og þróun sem er einmitt svo mikilvæg. Við sáum það til að mynda eftir að þessum gögnum var hleypt lausum, ef svo má að orði komast, í staðinn fyrir að þegar við opnum Google Maps sáum við bara hvítan flöt og eina gula línu fyrir veginn erum við núna farin að sjá meira á kortum vegna þess að aðgengi að gögnum Landmælinga er orðið opið.

Ég fagna frumvarpinu og raunar því að hér er verið að stíga enn þá frekar inn í þær ákvarðanir sem áður lágu fyrir. Það var lagt til í skýrslu árið 2011 að komið yrði á fót almennum landupplýsingagrunni sem hefði að geyma nákvæmar og ítarlegar landupplýsingar sem stjórnvöld þurfa á að halda vegna lögbundinna verkefna, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, og síðan árið 2013 er tekin ákvörðun um að gögnin verði gjaldfrjáls. Það er alveg í takt við almenna kröfu um aukið gagnsæi, þ.e. að almennt sé það þannig að almenningur eigi ekki að þurfa að fara langar leiðir í því að sækja það sem honum í raun og veru ber. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það að gögn sem er safnað í þágu almannavaldsins á kostnað almennings hljóti að eiga að vera aðgengileg þeim hinum sama almenningi, það hefur a.m.k. verið mín afstaða til þessa máls.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna neitt sérstaklega. Mér fannst rétt að koma aðeins inn í hana hér og gera grein fyrir þessari afstöðu. Það kom fram í ágætu andsvari hæstv. ráðherra að kortagrunnurinn er eins nákvæmur í raun og veru og Landmælingar vilja og það er ákveðin breyting að Landmælingar eru þá ekki bundnar eins og þær áður voru. Það er framfaraspor og ég ítreka að ég tel það vera til mikilla bóta að við stígum hér skrefið til fulls með að opna gögnin, við erum að auka möguleika Landmælinga á því að halda utan um þessi gögn en jafnframt að styrkja þá þætti samfélagsins sem þurfa á sterkum og öruggum landupplýsingagögnum að halda. Það sem er líka brýnt í þessu samhengi er að örva nýsköpun og þróun í atvinnulífinu.