144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Afríku er það svo að þar var skrifuð einhver frægasta bók síðasta áratugar um þá hemla sem væru á framþróun álfunnar. Einn sá helsti var sá að landfræðilegar upplýsingar skorti um afmörkun jarðnæðis. Þess vegna gátu þeir sem þar búa ekki leitað til dæmis til bankastofnana sem þá voru farnar að ryðja sér til rúms og leitað eftir lánum vegna þess að þeir áttu ekkert nema lönd, en þeim tókst ekki að sýna fram á afmörkun landsvæðis. Þess vegna var það skylt þegar kom að lánveitingum og menn áttu einfaldlega ekki kost á að stofna fyrirtæki og hefja rekstur. Þetta er vel þekkt.

Á Íslandi er þessi stofnun líka þörf og hefur sérstaklega verið nefnd í tengslum við Fasteignaskráningu ríkisins sem ein af grunnstofnunum sem getur gefið upp mjög nákvæmar upplýsingar um afmörkun jarða. Það skiptir máli. En að öðru leyti held ég að þessar málefnalegu rökræður okkar hér hafi leitt í ljós að ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson erum að þessu marki nokkuð sammála. Ég mun auðvitað halda áfram að reyna að leiðbeina honum til að ná áttum. Mér finnst hann oft vera töluvert áttavilltur, sérstaklega á sínu pólitíska rangli. En það breytir engu um að ég veit að ég mun ekkert uppskera fyrir þá viðleitni mína annað en vanþakklæti, en það breytir engu um að ég mun halda því áfram vegna þess að ég hef þrátt fyrir allt töluverða trú á þroskagetu hv. þingmanns og tel að þegar upp er staðið kunni hann hugsanlega að tosast eitthvað nær til skilnings á mínum sjónarmiðum en áður.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott hljóð því það er ekki alltaf sem ég fæ næði til að halda yfir honum ræðu.