144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

störf ríkisstjórnarinnar.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Síst af öllu átti ég nú von á því frá þingmanni Bjartrar framtíðar að hann færi að kvarta yfir því að menn væru rólegir í tíðinni með að leggja fram mál á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur lagt fram mikinn fjölda mála á þessu þingi og því síðasta. Ég þarf ekki að rekja það fyrir hv. þingmanni hvaða mál það eru. Hann getur einfaldlega flett því upp á vef Alþingis og skoðað málaskrá ríkisstjórnarinnar. En ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu verið að vinna samkvæmt stefnu sinni með þeim málum sem hún hefur lagt fram í öllum tilvikum, það segir sig eiginlega sjálft. Jafnframt hefur hún með þeim málum sem lögð hafa verið fram í þinginu náð gríðarlegum árangri á fjölmörgum sviðum, ráðist í úrbætur á sviðum allra þeirra ráðuneyta sem undir ríkisstjórnina heyra og komið efnahagslífi landsins aftur á réttan kjöl svo um munar, m.a. hafa orðið til, ég man nú ekki hver síðasta talan var, en líklega hátt í 7 þús. ný störf það sem af er kjörtímabilinu. Verðbólga hefur ekki verið jafn lág og hún er nú áratugum saman. Hagvöxtur hefur aukist til muna eða mun gera það á þessu ári og verður með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Þetta er afleiðing af því að ríkisstjórnin hefur komið á stöðugleika í landinu. Við búum ekki lengur við það pólitíska óöryggi og uppnám sem var ríkjandi hér á öllum sviðum eða mörgum sviðum samfélagsins á síðasta kjörtímabili. Nú ríkir stöðugleiki. Það kann að vera að hv. þingmaður upplifi það sem óþarfa eða of mikla ró og hann mundi frekar vilja hafa fleiri mál hér í uppnámi. En ég man nú ekki betur en hv. þingmaður hafi fundið sér eitt og annað sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til þess að æsa sig yfir á liðnum árum.