144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

störf ríkisstjórnarinnar.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki á því í hvaða samkvæmisleik ég er lentur með hv. þingmanni (Gripið fram í: Svara.) sem æsir sig síðan og fer að æpa í ræðustól og heimtar að ég fari að telja upp mál ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður [Frammíköll í þingsal.] hefur fundið … Virðulegur forseti. Hvaða órói er hér í salnum? Hv. þingmaður hefur fundið fjölmörg mál á undanförnum árum, undanförnu einu og hálfu ári, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem hann hefur talið ástæðu til að koma hér í ræðustól og æsa sig yfir, kannski ekki alveg jafn mikið og hann æsti áðan yfir því að ég skyldi ekki vilja mata hann á því hvaða mál ríkisstjórnin hefði lagt fram.

Jú, það er kannski erfitt að nefna eitt mál, en það er auðvelt að nefna 200, vegna þess að ef við færum að nefna eitt mál þá værum við að taka það sérstaklega út úr þeim gríðarlega fjölda mála sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og náð árangri í, þeim (Gripið fram í.) árangri að hv. þingmaður kemur hér í ræðustól og æpir í allar áttir í einhverri geðshræringu yfir því að ég skuli ekki vilja velja uppáhaldsríkisstjórnarmál mitt. (Gripið fram í.)