144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

lyklafrumvarp.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það var ekki alveg rétt eftir haft hjá hv. þingmanni í hverju ályktanir og tillögur flokkanna hefðu falist. Aðalatriðið er að með þeirri leið sem nú er til kynningar á heimasíðu innanríkisráðuneytisins stendur til að losa fólk undan þessum eftirstæðu kröfum á tveimur árum, þ.e. að þær fyrnist á tveimur árum. Samhliða því er verið að huga að því, til að mynda varðandi Íbúðalánasjóð, að hann rjúfi ekki fyrningu krafna sem standa utan markaðsvirðis fasteignar með nauðungarsölu þangað til að þessi nýju lög vonandi taka gildi.

Svo er ágætt, fyrst ég hef smátíma hér aflögu, að nota tækifærið til að bæta því við að það er líka verið að huga sérstaklega að réttarstöðu leigjenda, þ.e. að þegar húsnæði er boðið upp fái þeir tryggingu fyrir því að geta leigt húsnæðið áfram í allt að 12 mánuði frá nauðungarsölu enda hafi leigjandinn sjálfur (Forseti hringir.) búið í fasteigninni er nauðungarsalan fer fram, ekki allt að 12 mánuði heldur að minnsta kosti 12 mánuði, ætlaði ég að segja.