144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

endurhæfingarþjónusta við aldraða.

558. mál
[16:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi samninginn við Hrafnistu um endurhæfingarrýmin þá var mikill og fullur vilji hjá ráðuneytinu til að endurnýja hann. Það var tvíþætt; annars vegar var það skammtímadvöl með endurhæfingu, 20 rými, og síðan dagdvöl með endurhæfingu sem voru 30 rými. Starfsmenn ráðuneytisins gengu því til samningaviðræðna við Hrafnistu með það að meginmarkmiði að endurnýja báða þætti samningsins og tryggja framhald þessarar þjónustu. Í tengslum við þá vinnu var þjónustan metin af starfsfólki ráðuneytisins og Hrafnistu með sérstakri úttekt og viðtölum við fagfólk sem mest kemur að því að finna úrræði fyrir aldraða. Starfsmenn ráðuneytisins og Hrafnistu hittust á þó nokkrum fundum þar sem reynt var að ná samkomulagi. Þrátt fyrir góðan vilja beggja aðila gekk það ekki lengra og náðist ekki samkomulag. Tvennt stóð í vegi fyrir því að ná samkomulagi um rými með skammtímadvöl með endurhæfingu, þ.e. þessi 20 rými: Í fyrsta lagi kom fram í samtölum ráðuneytisins og Hrafnistu að mjög erfitt væri hjá Hrafnistu að ná fram fullri nýtingu á þeim rýmum, sérstaklega hjá þeim einstaklingum sem þjónustan nýttist best. Í öðru lagi töldu fulltrúar Hrafnistu og hjúkrunarheimilið að hjúkrunarheimilið þyrfti að fá allt að 30% hækkun á daggjöldum fyrir þessi rými til að halda rekstrinum áfram. Það hefði haft í för með sér ríflega 70 millj. kr. kostnaðarauka á daggjaldinu vegna þessarar hækkunar. Gat ráðuneytið ekki fallist á það þar sem ekki var fjárveiting fyrir þeirri hækkun og Hrafnista hafði ekki áhuga á því að halda rekstrinum áfram að óbreyttu.

Í því samhengi er þó rétt að taka fram að samningurinn um 30 dagdvalarrými með endurhæfingu fyrir aldraða var hins vegar endurnýjaður og verða þau rými áfram rekin af Hrafnistu.

Þegar spurt er að því hvort til standi að draga úr þeirri þjónustu til frambúðar er alveg ljóst að endurhæfingin getur skipt miklu máli til að viðhalda heilbrigði og færni aldraðra, en það er mikilvægt til að stuðla að farsæld og innihaldsríkari efri árum. Enginn áhugi er því til að draga úr þeirri þjónustu, hvorki hjá mér né ráðuneytinu. Ráðuneytið er að leita og mun leita allra leiða til að tryggja að fjármagnið sem áður fór í þessi 20 rými fari áfram í þjónustu við aldraða í góðu samstarfi við Hrafnistu sem og önnur hjúkrunarheimili. Fyrirmæli mín eru þau að sjónum verði sérstaklega beint að því hvernig nýta megi þetta fjármagn sem best í endurhæfingu fyrir aldraða.

Það er líka ánægjulegt í þessu sambandi að geta sagt frá því að á síðasta ári var sett fjármagn í tilraunaverkefni hjá heimaþjónustu Reykjavíkur sem byggt er á margverðlaunuðu verkefni sem kennt er við Fredericia í Danmörku. Verkefnið felur í sér að horft er til endurhæfingar og forvarna í heimahúsi með virkri þátttöku aldraðra í stað hefðbundinnar þjónustu. Endurhæfingin getur vissulega verið lykillinn að því að auka farsæld og gefið efri árunum meira innihald. Hún getur einnig skipt sköpum í því að styðja eldra fólk til sjálfstæðrar búsetu heima fyrir, en eins og hv. þingmaður þekkir hefur það verið stefna stjórnvalda í langan tíma að fólk búi eins lengi heima og mögulegt er. Við munum þar af leiðandi vinna að því í ráðuneytinu að í boði verði endurhæfing fyrir aldraða og að hún verði frekar aukin en að dregið verði úr henni innan þeirra fjárheimilda sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Ég vil í lokin nefna að ég var að koma ofan úr Borgarseli þar sem Reykjavíkurborg var að taka í notkun viðbót í þjónustu við heilabilaða í samstarfi við Eir. Verið var að opna 18 dagdvalarrými í Borgarseli og er það mikil og góð viðbót við þá góðu þjónustu sem þar er veitt.