144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í dag upp í störfum þingsins til þess að vekja athygli á máli sem varðar úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Til er samþykkt um störf þessarar nefndar frá árinu 2000 sem er í meira lagi óheppileg fyrir ábyrgðaraðila og veðsala sem leitað hafa réttar síns gagnvart þessari nefnd. Á vefsíðum allra fjármálafyrirtækja er vísað í þessa nefnd. Málskotsgjaldið er frá 5 þús. kr. upp í 15–30 þús. kr., það er tiltölulega ódýrt að fara með mál lengra ef maður er ósáttur með samskipti sín við fjármagnsstofnanir. Nú ætla ég að gera þingheimi örstutt grein fyrir því hvernig staðan er raunverulega.

Eins og við vitum og eins og rætt hefur verið í þingsölum eru mjög margir með lánsveð; foreldrar, afar og ömmur, vinir og ættingjar, sem lánað hafa veð t.d. í fasteignunum sínum til skuldara. Hægt að kæra niðurstöður til úrskurðarnefndar. Frá því árið 2011 hafa fjölmörg mál unnist í þeirri nefnd en það er mjög sérstakt að úrskurður nefndarinnar er ekki bindandi fyrir fjármálafyrirtækið. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp 12. gr. í samþykkt fyrir úrskurðarnefnd fyrir viðskipti um fjármálafyrirtæki. Þar segir:

„Hafi úrskurður nefndarinnar veruleg útgjöld í för með sér fyrir viðkomandi fjármálafyrirtæki eða fordæmisgildi er fjármálafyrirtæki heimilt innan þess tímafrests sem tilgreindur er í 2. málsgr. 11. gr.“, sem er samkvæmt 4. gr. fjórar vikur, „að tilkynna nefndinni og viðkomandi aðila það að hann sætti sig ekki við úrskurðinn og muni ekki greiða bætur nema að undangengnum dómi.“

Þetta er mjög sérstök úrskurðarnefnd. Ég vonast til þess að þessu verði breytt hér á Alþingi.