144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[16:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu og ekki síður hæstv. ráðherra fyrir aðkomu að þessari umræðu. Þetta er eitt af þeim málum sem er töluverður samhljómur um hér í þinginu og við tölum ekki hvert í sína áttina. En það liggur líka fyrir að framkvæmdarvaldið er hjá ráðherra og þetta mál er þeirrar gerðar að það krefst þess að brugðist sé við því ástandi sem við blasir.

Íslenskt samfélag hefur í raun og veru fengið leiðsögn frá tveimur burðarásum í málum af þessu tagi, annars vegar frá pyndinganefndinni og hins vegar frá umboðsmanni, eins og hér var getið um bæði í framsögu hv. þm. Róberts Marshalls og ekki síður hjá öðrum þingmönnum, þannig að það liggur algerlega fyrir hvað gera þarf eða hver leiðsögnin er hjá þeim sem hafa það hlutverk með höndum að vakta þau sjónarmið sem hér eru undir, mannréttindi og eðlilega þjónustu við þá sem búa við frelsissviptingu og alvarlegar geðraskanir.

Enginn hefur þó enn þá nefnt í þessari umræðu það sem mér finnst nánast blasa við að þurfi að gera, það er að kalla saman strax alla þá aðila sem hafa þekkingu á málaflokknum, sem er alltaf dálítil áskorun þegar við tölum um mál sem sker bæði ráðuneyti og stofnanir, þ.e. að hefja strax einhvers konar samtals- eða samráðsvettvang þeirra sem best þekkja til og m.a. þá þeirra geðheilbrigðisstarfsmanna sem komið hafa að málinu á fyrri stigum, ég vil sérstaklega nefna Harald Erlendsson sem var með 20% stöðu við Litla-Hraun núna síðast þegar sú staða var mönnuð, með það að markmiði að ná upp teymisvinnu í kringum þetta verkefni. Hér er um að ræða slíka sérhæfingu (Forseti hringir.) bæði að því er varðar fangelsi og (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu að það er eina nálgunin (Forseti hringir.) sem ég mundi telja að væri rétt og hvet ráðherra til að finna farsæla lausn á því.