144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að hæstv. forseti hefur setið jafn dolfallinn undir þessum lestri og ég því að ekki hafði mig órað fyrir því að flækjustigið og frumskógurinn sem kaupaukakerfið eða bónuskerfið sem var innan bankanna væri svona ógnvænlegt. Hér taldi hv. þm. Birgitta Jónsdóttir upp sennilega tugi dæma um mismunandi bónusgreiðslur af öllu mögulegu og ómögulegu tilefni sem bankarnir nýttu sér til starfrækslu og til þess að hámarka hagnað sinn á síðasta áratug áður en allt fór hér á hvolf.

Ég get ekki annað en sagt, eftir að hafa hlustað á þennan lestur, að vítin eru svo sannarlega til varnaðar. Hér hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni að sá partur þessa frumvarps sem hv. þingmenn kvíða heldur að komist til framkvæmda er akkúrat sá að það er verið að rýmka fyrir bónuskerfum í bönkunum aftur. Því miður höfum við séð á síðustu missirum að svo virðist sem kúltúrinn þar innan dyra sé heldur að síga til sömu áttar og hann var árið 2007 þegar allt fór úr böndunum, þegar bónusgreiðslur til alls konar fólks voru svimandi háar og námu í mörgum tilvikum miklu hærri upphæðum en launin sjálf. Í þessu frumvarpi kemur skýrt fram að til dæmis er ekkert hugað að því með hvaða hætti þetta getur birst neytendum. Hv. þingmaður rakti hins vegar í andsvari í dag mjög gott dæmi um það með hvaða hætti það getur bókstaflega steypt undan heiðvirðu fólki sem er að safna örlitlum sjóði til að kaupa sér húsnæði eða til elliáranna.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann er: Telur hún að það eigi alfarið að skera kaupaukakerfin út eða er hún þeirra skoðunar að það eigi að breyta þeim.? Er eitthvert afbrigði þeirra sem hún telur (Forseti hringir.) í lagi að nýta innan fjármálastofnana?