144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

náttúrupassi.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem er undirliggjandi í þessari umræðu er sá mikli vandi sem hefur birst víða á fjölförnum ferðamannastöðum og við þekkjum öll. Það er í fyrsta lagi öryggi ferðamannanna á þessum stöðum sem hefur reyndar verið í umræðunni í fjölmiðlum undanfarna daga, í öðru lagi er sjálfbærnin, að staðirnir séu ekki troðnir niður og í þriðja lagi að aðstaðan sé viðunandi, það séu stígar, salernisaðstaða, bílastæði o.s.frv. Sú grunnhugsun hefur legið vinnu ríkisstjórnarinnar til grundvallar í þessu efni að það séu einkum þeir sem heimsækja þessa staði og njóta þeirrar aðstöðu sem þar er eigi að greiða. Það stóð ekki á ríkisstjórninni á síðasta ári að koma með viðbótarframlög til málaflokksins, jafnvel þótt ekki væru til staðar neinir nýir skattstofnar. Þannig lagði ríkisstjórnin fram með sérstakri ákvörðun meira en 400 milljónir til að byggja upp þessa staði. Því miður kom í ljós að á þeim stöðum sem sérstaklega stóð til að byggja upp voru menn ekki tilbúnir til þess að taka við fjármagninu og hrinda af stað þeim framkvæmdum sem horft var til, stígagerð, pöllum o.s.frv. Það breytir því ekki að verkefnið er enn þá fyrir framan okkur.

Nú er spurningin þessi: Eigum við að byggja upp kerfi þar sem við viðhöldum þeirri hugsun sem hefur legið málinu til grundvallar fram til þessa, að það séu einkum þeir sem njóta sem borga á staðnum með beinum eða óbeinum hætti eða eigum við að taka fjármuni til þessa málaflokks af skattfé?

Ég get tekið undir að ríkissjóður hefur með beinum og óbeinum hætti töluvert auknar tekjur af ferðamönnunum, þeim auknu umsvifum sem af þessum straumi ferðamanna leiðir og að sjálfsögðu hefur komið til skoðunar hvort við ættum ekki að koma upp nýjum tekjustofnum heldur eingöngu byggja á ríkiskassanum til að standa í þessari uppbyggingu. Nú er málið til meðferðar (Forseti hringir.) í þinginu og ég vonast til þess að okkur auðnist á þessu vorþingi að leiða það til lykta.