144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

beiðni um þingfund.

[15:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir það sem hér hefur komið fram. Þingflokksformenn báðu um fund seinasta föstudag og ekki var orðið við þeirri beiðni. Þá finnst mér alveg rétt að minnast þess að um kvöldið var þingveisla og má alveg gera ráð fyrir því að þingmenn hefðu getað mætt til þinghalds með tiltölulega skömmum fyrirvara. Sömuleiðis vil ég þó þakka hæstv. forseta fyrir að breyta dagskránni í dag. Það er mjög til bóta. Það er grundvallaratriði að Alþingi sjálft skilji sinn eigin tilgang og sitt eigið hlutverk. Í sjálfu sér er engin þörf á því að fá útskýringar hæstv. utanríkisráðherra á því hvað þingsályktun þýði og hvernig Alþingi starfi, það er okkar hér að ákveða og síðast en ekki síst að sjálfsögðu, og fyrst og fremst reyndar, þjóðarinnar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingi verði að jafnaði opnir.