144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þingsályktunartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur rakið það oft á síðustu vikum og mánuðum að gera mætti ráð fyrir því að tillaga um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði lögð fyrir Alþingi Íslendinga á vormissiri. Hann sagði 17. janúar í fréttum Ríkisútvarpsins að hann gerði ráð fyrir að slík tillaga kæmi fram og næði fram að ganga á Alþingi. Hann sagði á Bylgjunni 2. mars að hann gerði ráð fyrir að slík tillaga kæmi fram enda væri hún nefnd í málaskrá ríkisstjórnarinnar og það væri líklegt að fram kæmi tillaga frá utanríkisráðherra enda mikilvægt að skýra afstöðu Íslands til þessarar aðildarumsóknar.

Nú liggur fyrir að hvorki hæstv. forsætisráðherra né ríkisstjórn hans treystir sér til að leggja slíka tillögu fyrir Alþingi Íslendinga, væntanlega vegna þess að hann var ekki viss um hverjar málalyktir yrðu á Alþingi. Til að komast hjá því og reyna jafnframt að ná þeim árangri að spilla aðildarumsóknarferlinu er farin sú leið að skrifa bréf og fara með það eins og mannsmorð. Hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hans stóðu hér fyrir sjónarspili sem fólst í fordæmalausum launráðum og undirhyggju í meðferð mála, lét sig hafa það að gera lítið úr eigin utanríkismálanefndarmönnum með því að leyfa þeim að sitja utanríkismálanefndarfund á fimmtudaginn án þess að vita að búið væri að taka grundvallarákvarðanir um meðferð utanríkismála og gekk með þeim hætti skýrt fram hjá þingi og þjóð sem margsinnis hefur verið lofuð aðkoma að málinu.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er hann sammála formanni utanríkismálanefndar Alþingis og forseta þings sem báðir hafa lýst því yfir að þingsályktunin frá 2009 sé enn í fullu gildi?

Í annan stað: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að sjá sóma sinn í að draga þetta bréf til baka og leggja málið fyrir með boðlegum hætti í samræmi við þingræðisreglur og þingræðisvenjur til efnislegrar umræðu á Alþingi Íslendinga?