144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[15:51]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það eru ótrúlegir útúrsnúningar hjá hv. þingmanni að halda því fram að ég hafi verið að upplýsa um eitthvert ótrúlegt leynisamkomulag með orðum mínum áðan. Það sem ég vísaði til, ég skal upplýsa hv. þingmann um það, er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar sem er algjörlega þvert á allt sem gæti kallast leyniplagg. Ég skal senda hv. þingmanni eintak af því margopinberaða plaggi sem liggur fyrir á heimasíðu … [Háreysti í þingsal.] Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Þó að ég hafi rakið samtal eftir minni ætla ég bara að upplýsa líka að ég skoðaði þennan þátt sérstaklega fyrir örstuttu þannig að minni mitt í þessum málum er ljómandi gott og ég hvet hv. þingmann til að horfa á þáttinn í heild sinni og allar þær umræður í staðinn fyrir að vitna til einnar setningar.